Vigdis Hjorth (1. hluti)

Höfundakvöld

Vigdis Hjorth (f. 1959) er norskur rithöfundur,  menntuð í hugmyndasögu, stjórnmálafræði og bókmenntafræði. Hjorth starfaði áður við gerð barnaefnis hjá norska ríkissjónvarpinu (NRK).

Með nýjustu skáldsögu sinni, Arv og miljø, sem kom út árið 2016 er Hjorth að fást við kunnuglegt þema: Þegar fjölskyldufaðirinn deyr, kemur upp ágreiningur milli erfingja hans um það hvernig skipta skal búinu. Baráttan um arfinn knýr ósætti og leyndarmál upp á yfirborðið sem legið hafa eins og mara á fjölskyldunni í mörg ár. Í sögu sinni tekst Hjorth á við samfélagsmeinið „misnotkun“ og hvernig hún getur haft afgerandi áhrif og afleiðingar fyrir manneskjuna það sem eftir lifir. Framvinda sögunnar er ekki misnotkunin sjálf, hvað nákvæmlega gerðist, heldur hvernig aðalpersónan berst við að gera upp fortíðina og afleiðingar hennar, hvernig baráttan fyrir sannleikanum getur haft áhrif á allt líf þeirra sem hlut eiga að máli. Frá því að frumraun höfundar kom út og í gegnum höfundaferil sinn, sem inniheldur allt frá ritgerðarsöfnum og greinum, upp í barnabækur og skáldsögur hefur Vigdis Hjorth skapað sér nafn sem einn áhrifamesti höfundur sinnar kynslóðar í Noregi. Útkoma bókarinnar Arv og miljø á ekki síst þátt í að skapa höfundi sínum nafn sem einni af stóru röddum norskrar nútíma bókmenntasögu og er höfundur tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017 fyrir bókina.

Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri bókmennta á Borgarbókasafni Reykjavíkur stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku.