Sumartónleikar – Svavar Knútur og Kristjana Stefáns


19:00 & 21:00

ATH!! Aukatónleikum hefur verið bætt við kl. 19.  Aðeins 20 miðar eru í boði og þess verður gætt að 2m verði á milli gesta.

Söngvaskáldið ástsæla Svavar Knútur tróð upp fyrir fullu húsi á tónleikaröðinni í fyrra. Okkur er sannkölluð ánægja að bjóða honum að spila aftur í ár. Honum til trausts og halds verður Kristjana Stefáns, ein besta djass- og blússöngkona þjóðarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau Svavar og Kristjana vinna saman. Árið 2011 gáfu þau út saman plötuna Glæður og í fyrra fóru þau saman í tónleikaferð um landið. Tónlistarlegur bakgrunnur þeirra er frekar ólíkur sem reynist vera mikill styrkur í samstarfinu. Enginn vafi er á því að okkar bíða í senn töfrandi og seiðandi tónleikar, einstakir í sinni röð.

Sumartónleikar
Fjórða tónleikaröð Norræna hússins verður sérstaklega glæsileg. Að meðtöldum fjórum kvöldum með framúrskarandi íslensku tónlistarmönnum býður húsið í ár upp á fjóra vel þekkta tónlistarmenn frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Frá draumkenndu og kvikmyndalegu avant-poppi og friðsælli píanótónlist yfir í rytmískt elektró popp – í sumar verður jafnvel enn breiðara úrval af tónlistarkonfekti en í fyrra.

Tónleikaröðin fer fram á miðvikudögum í sumar frá 1. júlí til 19. ágúst kl. 21.00. Aðgangseyrir er 2.000-3000 kr og 1.500 kr fyrir námsmenn og eldri borgara.

Sumartónleikar dagskrá