Sumartónleikar

Fjórða tónleikaröð Norræna hússins verður sérstaklega glæsileg. Að meðtöldum fjórum kvöldum með framúrskarandi íslensku tónlistarmönnum býður húsið í ár upp á fjóra vel þekkta tónlistarmenn frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Frá draumkenndu og kvikmyndalegu avant-poppi og friðsælli píanótónlist yfir í rytmískt elektró popp – í sumar verður jafnvel enn breiðara úrval af tónlistarkonfekti en í fyrra.

Tónleikaröðin fer fram á miðvikudögum í sumar frá 1. júlí til 19. ágúst kl. 21.00.  Aðgangseyrir er 2.000-3000 kr og 1.500 kr fyrir námsmenn og eldri borgara.

 

Kaupa miða

Lau Nau

Miðvikudaginn 1. júlí kl. 21.

Laura Naukkarinen, eða Lau Nau eins og hún kallar sig í tónlistarheiminum, er eitt af mest spennandi nöfnum í nútíma finnsku tónlistarlífi. Myndrænu tónverkin hennar eru bæði framsækin og falleg þar sem hún blandar saman lifandi hljóðfærum, rafhljóðfærum og umhverfishljóðum. Hljóðmyndir hennar hafa prýtt bæði listaverk og kvikmyndir og hún kemur í Norræna húsið með tríó sem mun bjóða upp á lifandi og nýstárlega ferð inn í framandi svæði tónlistar.

Hlusta á tónlist

Kaupa miða

Farao

Miðvikudaginn 8. júlí kl. 21.

Farao er listamannsnafn norsku tónlistarkonunnar Kari Jahnsen. Nýjasta plata hennar Pure-O sló í gegn í tónlistarheiminum og hlaut lof margra helstu gagnrýnenda. Enda er platan sannkölluð veisla fyrir eyrað! Með geislandi blöndu af ryþmablús og austurríkjadiskótónlist tíunda áratugarins hefur hún skapað frumlegan hljóðheim, kryddaðan öruggri röddu hennar þar sem hún syngur opinskátt um flókin ástarsambönd. Ásamt fjögurra manna hljómsveit mun Farao bjóða upp á taktfasta og melódíska upplifun í tónleikasal Norræna hússins.

Hlusta á tónlist

Kaupa miða

August Rosenbaum

Miðvikudaginn 15. júlí kl. 21.

August Rosenbaum er orðinn vel þekktur í dönsku tónlistarlífi og nú gefst Íslendingum tækifæri til að kynnast honum! August hefur samið tónlist fyrir myndlist, leikhús og dans en meðal þeirra listamanna sem hann hefur unnið með má nefna Rhye, Robin Hannibal, MØ, Kendrick Lamar, Kim Gordon, Kindness og SOHN. Í nýju sólóverkefni leitast hann við að finna ný tjáningarform og sína eigin rödd í nútímalegri píanótónlist. Í Norræna húsinu í júlí fáum við tækifæri til að heyra hann leika á fallega Steinway-flygilinn í fullkomnum hljómburði í tónleikasal Alvars Aalto.

Hlusta á tónlist

Kaupa miða

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson

Miðvikudaginn 22. júlí kl. 21.

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson komu einnig fram á tónleikaröðinni í fyrra og léku þá fyrir troðfullu húsi. Við ákváðum að endurtaka leikinn, fyrir þá sem þurftu frá að hverfa en ekki síður fyrir hina heppnu sem komust inn enda er óhætt að segja að tónlist Ólafar og Skúla er bæði vönduð og vanabindandi. Ólöf er einstök söngkona, lagasmiður og fjölhæfur hljóðfæraleikari. Skúli er skapandi bassaleikari og hefur samið fjölda óvenjulegra tónverka.

ADHD

Miðvikudaginn 29. júlí kl. 21.

Óhætt er að segja að smá tryllingur hafi skapast þegar hljómsveitin ADHD tróð upp í Norræna húsinu í fyrrasumar. Það var hreinlega slegist um miðana og margir þurftu frá að hverfa. Liðsmenn hljómsveitarinnar hlakka til endurkomunnar í ár þar sem Íslendingum gefst nýtt tækifæri til að sjá þá og heyra. En hafið hraðan á því miðarnir eiga eftir að renna út eins og heitar lummur!

Jenny Wilson

Miðvikudaginn 5. ágúst kl. 21.

Sænski lagasmiðurinn Jenny Wilson sló í gegn með frumraun sinni Love & Youth árið 2005 og bárust þeir straumar alla leið til Íslands. Hún hefur vakið athygli fyrir frumlega og djarfa listsköpun. Hún veigrar sér ekki við að afhjúpa sjálfa sig í textum sínum en á tveimur nýjustu plötum hennar, Exorcism og Trauma, fjallar hún opinskátt um að verða fyrir ofbeldi. Á þeirri síðarnefndu tvinnast nútíma rafhljóð hennar við útsetningar fyrir sinfóníuhljómsveit. Jenny er tilnefnd til norrænu By:Larm tónlistarverðlaunanna. Á tónleikum hennar í Norræna húsinu í ágúst býður hún upp á rafræna tónlistarveislu sem enginn má missa af!

Hlusta á tónlist

Kaupa miða

Ellen og Eyþór

Miðvikudaginn 12. ágúst kl. 21.

Á tónleikum Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu og Eyþórs Gunnarssonar píanó- og hljómborðsleikara verða á efnisskránni íslensk sönglög, sálmar og ýmis uppáhaldslög söngkonunnar. Ellen hefur gefið út margar plötur í eigin nafni en einnig átt frjótt samstarf við annað tónlistarfólk, þar á meðal Magnús Eiríksson og Mannakorn. Eyþór hóf feril sinn með hljómsveitinni Mezzoforte á árinu 1977. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika og átt þátt í gerð um 200 hljómdiska í samstarfi við helstu tónlistarmenn þjóðarinnar. Hér gefst einstakt tækifæri að heyra og sjá þetta framúrskarandi listafólk í fallegum tónleikasal Norræna hússins.

Svavar Knútur og Kristjana Stefáns

Miðvikudaginn 19. ágúst kl. 21.

Söngvaskáldið ástsæla Svavar Knútur tróð upp fyrir fullu húsi á tónleikaröðinni í fyrra. Okkur er sannkölluð ánægja að bjóða honum að spila aftur í ár. Honum til trausts og halds verður Kristjana Stefáns, ein besta djass- og blússöngkona þjóðarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau Svavar og Kristjana vinna saman. Árið 2011 gáfu þau út saman plötuna Glæður og í fyrra fóru þau saman í tónleikaferð um landið. Tónlistarlegur bakgrunnur þeirra er frekar ólíkur sem reynist vera mikill styrkur í samstarfinu. Enginn vafi er á því að okkar bíða í senn töfrandi og seiðandi tónleikar, einstakir í sinni röð.