Pikknikk Tónleikar: BSÍ (IS)


15:00
Aðgangur ókeypis

Af hverju í ósköpunum myndi einhver nefna hljómsveitina sína í höfuðið á grárri og þunglyndislegri bifreiðastöð í Reykjavík? Í stað þess að finna svar á þessari spurningu skulum við fullyrða að þau Sigurlaugu Thorarensen og Julius Pollux Rothlaender stofnuðu BSÍ undir þeim formerkjum að spila á hljóðfæri sem þau kynnu ekkert á og líta á hljómsveitina sína sem leikvöll þar sem allt er leyfilegt og þau geta einfaldlega bara verið þau sjálf. Með því að beina berskjaldaðri sorg og hrárri gleði og reiði í tvær ólíkar áttir skapa þau tónlist sem er á köflum melankólísk og á köflum hratt og pönkað lo-fi-krútt-popp-pönk.

 

Viðtal við Sigurlaugu Thorarensen, söng og trommur, og Julius Pollux Rothlaender, bassa og hljóðgervil, BSÍ: 

Hvernig mynduð þið útskýra tónlistina ykkar?  

Hlustendur fá sjálfir að ákveða hvað þeir halda að við séum. Við viljum ekki vera í tilteknum flokki. Við gerum venjulega að gamni okkar og segjumst vera allt – Pop-pönk-indie-surf og setjum það saman, allt í einu. Við erum blanda af hröðu og háværu, mjúku og rólegu.

 Hvernig skerið þið ykkur úr á litlu landi eins og Íslandi, þar sem margir eru að gera tónlist? 

Julius: Ég er ekki upphaflega frá Íslandi en flutti hingað frá Þýskalandi fyrir nokkrum árum og tók fljótt eftir sköpunarorkunni sem er hér á Íslandi. En það virðist ekki snúast um að skera sig úr, heldur frekar bara að gera. Í Berlín var mikið um það hver væri flottastur, en ekki á Íslandi. Hér gera allir eins og þeim sjálfum líður. Þegar við gerum tónlist reynum við að hafa gaman og njóta. 

Silla: Ég er sammála, það er minni samkeppni milli tónlistarmannanna hér. Við styðjum hvert annað og spilum saman. 

BSÍ, það er umferðarmiðstöðin í Reykjavík, en þegar ég fer á Instagrammið ykkar stendur „Brussels sprout intl“. Hvað þýðir nafnið eiginlega? 

Hvoru tveggja, ekkert og hvað sem er. Það eru til svo margar sögur um þetta. Þetta byrjaði með því að Silla klæddist treyju frá Brussel International School á fyrstu æfingunni okkar. Við fengum líka rósakál í kvöldmat einu sinni og tengingin við umferðarmiðstöðina er skemmtileg vegna þess að ferðamennirnir eiga eftir að sjá svo margt fallegt þegar þeir koma til Íslands og svo tekur ein þunglyndislegasta bygging landsins á móti þeim. En við erum ávallt opin fyrir tillögum um hvað nafnið ætti að standa fyrir – Bullshit Íslands og Besta Sveit Íslands eru nokkrar tillögur sem við höfum hugsað um og fengið. 

 Ef þú myndir ekki tjá þig í gegnum tónlist, hvað myndirðu gera þá? 

Julius: Fara í fuglaskoðun og leyfa öðrum að tjá sig. 

Silla: Ég veit hvað Julius ætti að gera! Hann er mjög góður í að skrifa, hann gæti verið frægur rithöfundur. 

Julius: Ég er enn að hugsa um fuglaskoðun, en takk fyrir. Silla gæti verið málari, hún er góð í því.

Á hverju geta áhorfendur átt von á sunnudaginn?
Það mun koma svolítið á óvart hvaða hliðar við veljum að sýna. En við munum líklega blanda því saman í eitthvað sem hentar öllum. Þetta er fjölskylduvænn viðburður og stund til að gleðjast á sama tíma og sunnudagar eru bestu dagarnir til þess að vera dapur í bragði.