Sjónlistadagurinn í Norræna húsinu

Sjónlistadagurinn í Norræna húsinu

Sýning á verkum nemenda 4. og 6. bekkjar Fellaskóla

Sjónlistardagurinn er samnorrænn myndlistardagur barna og ungmenna sem haldin er hátíðlegur ár hvert. Dagurinn þjónar þeim tilgangi að sýna og upphefja myndlist og möguleika listgreina. Markmiðið er að dagurinn verði haldin hátíðlegur á öllum Norðurlöndunum í skólum, söfnum og stofnunum.

Á Íslandi er þema ársins fjaðrir og hafa nemendur gert ólík verk í tengslum við þemað. Í sköpunarferlinu voru orðatiltæki kynnt í tengslum við fjaðrir og nemendur gerðu í kjölfarið hækur (haika) um fjaðrir sem margir hverjir tengdu við sitt heimaland – enda er meirihluti nemenda í Fellaskóla með annað upprunaland en Ísland. Listakonan Sara Riel kom í heimsókn í skólann og talaði um verkið sitt Fjöðrina sem er á útvegg í Asparfelli á byggingu gegnt Fellaskóla og allir nemendur þekkja. Í kynningu sinni útskýrði hún hugmyndina á bak við fjöðrina og frá því hvernig það er að vinna svona stórt verk á byggingu.

«Fjöður er mjög sæt

Fjöður elskar mig mikið

Fjöður er á fugl»

-Aleksandra

«Í Varsjá eru

Margir fuglar fljúgandi

Fjaðrirnar detta»

-Óskar

Sýningin opnar þann 13. mars og verður í sýningarrými á gangi hjá aðalinngangi Norræna hússins út vikuna. Aðgengi er gott á aðalhæð hússins, aðgengileg og kynhlutlaus salerni eru á sömu hæð.