Pikknikk Tónleikar
Norræna húsið opnar glerdyrnar að nýju og býður þér á tónleika undir björtum himni, alla sunnudaga í sumar kl. 15:00. frá 5. júlí 9. ágúst 2020. Tónleikaröðin fer fram í fallegu umhverfi gróðurhúss Norræna hússins og laðar að sér bæði íslenska og erlenda tónlistarunnendur. Frítt er inn á alla tónleikana.
Kaffi, kökur og léttur matur verður til sölu á MATR
Rauður
Sunnudaginn 5. júlí kl. 15.
Rauður er listamannsnafn tónlistarkonunnar og pródúsentsins Auðar Viðarsdóttur. Hún var áður söngkona og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Nóru, en í október 2019 gaf hún út sína fyrstu breiðskífu, Semilunar. Í kjölfarið hefur hún komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum víða um Evrópu og hefur platan hlotið mikið lof. Tónlist Rauðar fléttar hennar eigin marglaga röddum saman við þéttan undirtón hljóðgervla og trommuheila. Lagasmíðarnar eru allt frá því að vera poppaðar, innblásnar af sálmum og pönki, yfir í dansvæna elektróník, og þaðan í synthaballöður.
Jóhanna Elísa
Sunnudaginn 12. júlí kl. 15.
Það sem einkennir Jóhönnu Elísu á tónleikum er söngröddin sem er kristaltær og fellur vel að ævintýralegum tónsmíðum hennar. Í haust er væntanleg plata frá tónlistarkonunni sem er innblásin af málverkum. Nýverið kom út singúll af plötunni sem ber heitið ‘Queen of Winter’. Lagið hefur fengið góðar viðtökur en það fékk tilnefningu í viðurkenndu lagasmíðakeppninni ‘The European Songwriting Awards’. Með Jóhönnu Elísu á tónleikunum verður strengjatríó sem þær Soffía Jónsdóttir, Steina Kristín Ingólfsdóttir og Ester Petra Gunnarsdóttir skipa.
Unnur Sara
Sunnudaginn 19. júlí kl. 15.
Söngkonan Unnur Sara Eldjárn og píanóleikarinn Þórður Sigurðarson flytja franska kaffihúsatónlist frá listafólki á borð við Edith Piaf, Serge Gainsbourg og Jacques Brel. Hér gefst frábært tækifæri til að heyra lög flutt í lágstemmdri útgáfu í einstökum hljómburðinum í gróðurhúsi Norræna hússins. Unnur Sara hefur löngum heillast af franskri tónlist og fyrir stuttu gaf hún út plötuna Unnur Sara syngur Gainsbourg. Platan hefur hlotið verðskuldað athygli og hefur lagið La Javanaise náð tæpleg milljón spilunum á Spotify.
MIMRA
Sunnudaginn 26. júlí kl. 15.
Söngkonan og lagahöfundurinn MIMRA hefur getið sér gott orð fyrir tónlist sína sem er í stíl við japarþjóðlagapopp. MIMRA er listamannsnafn Maríu Magnúsdóttur en hún útgaf nýlega lög í samvinnu við ýmsa, þar á meðal lagið Right Where You Belong, sem ZÖE hljóðhannaði. Fyrsta breiðskífa MIMRU, Sinking Island, kom út árið 2017 en MIMRA tók hana upp með ýmsu tónlistafólki og útsetti hana síðan og hljóðblandaði í London þegar hún stundaði þar nám í tónlist og upptökutækni við Goldsmiths University. MIMRA kemur reglulega fram á tónleikum ýmist ein eða ásamt hljómsveit.
Markús Bjarnason
Sunnudaginn 2. ágúst kl. 15.
Markús Bjarnason eða einfaldlega Markús er söngvaskáld og tónlistarmaður úr Reykjavík sem hefur komið fram og gefið út tónlist í rúman áratug. Nýjasta útgáfa hans Counting Sad Songs vakti verðskuldaða athygli hér á landi og hefur sömuleiðis fengið spilun á KEXP í Seattle. Áhorfendur mega búast við einlægum tónleikum sem verða tilfinningahlaðnir, kraftmiklir og afvegaleiðandi. Markús kemur fram ásamt meðspilurum sem galdra fram óreiðukennt en einfalt þjóðlagarokk sem umlykur hjartarætur allra sem á hlýða.
Jelena Ciric
Sunnudaginn 9. ágúst kl. 15.
Tónlist Jelenu laðar þig til sín með hlýju, glettni og heiðarleika. Hljóðheimur hennar er undir áhrifum frá Serbíu þar sem Jelena fæddist og Kanada þar sem hún óx úr grasi. Þá gætir áhrifa af jarðbundinni þjóðlaga-, djass-, og popptónlist. Að lokum heyrirðu frásögn – sem er í sönn áhrifamikil, hjartnæm, og drepfyndin. Sérstakir gestir á tónleikunum verða fiðlu- og víóluleikarinn Karl James Pestka og Margrét Arnardóttir harmónikuleikari. Tríóið mun leika lög af væntanlegri plötu Jelenu sem kemur út í haust 2020.