OPIÐ FYRIR TILNEFNINGAR TIL UMHVERFISVERÐLAUNA

OPIÐ FYRIR TILNEFNINGAR TIL UMHVERFISVERÐLAUNA NORÐURLANDARÁÐS. Almenningi er boðið að senda inn tillögur að tilnefningum. Þema ársins er sjálfbær framleiðsla og notkun á textíl.

TILNEFNA

Framleiðsla og notkun á textílefnum hefur í för með sér mikil og neikvæð áhrif á umhverfið og loftslagið. Með þema ársins vill dómnefndin vekja athygli á því að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru í virðiskeðju textílefna í heild sinni.

„Ósjálfbær umgengni við textíl er vandamál á heimsvísu en okkur á Norðurlöndum ber sérstaklega skylda til að breyta okkar nálgun. Hér á sér stað gríðarlega mikil notkun sem hefur áhrif langt út fyrir landamæri okkar. Í stuttu máli kaupum við of mikið, notum það sem við kaupum of lítið og auk þess endurnýtum við ekki nógu mikið,“ segir Cilia Indahl, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Í ár fjallar þema verðlaunanna um líftíma textíls, allt frá framleiðslu á hráefni til hönnunar, sölu og endurnýtingar.

„Við erum í þeirri stöðu að þurfa að draga úr notkun, lengja líftíma textílefna og taka upp viðskiptalíkön í anda hringrásarhagkerfis. Við vonum að umhverfisverðlaunin geti átt þátt í að sýna fram á að textíliðnaðurinn geti verið sjálfbær og að nú þegar séu til góð fordæmi sem sækja megi innblástur til,“ segir Cilia Indahl.

Lesa má nánar um þema ársins með því að smella hér.

Öllum er frjálst að senda inn tillögur.

Umhverfisverðlaunin eru þau einu af verðlaunum Norðurlandaráðs þar sem almenningi gefst færi á að senda inn tillögur að tilnefningum.

Frestur til að senda inn tillögur er þriðjudagurinn 9. maí.

Hver geta hlotið tilnefningu? Verðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem með fyrirmyndarvinnubrögðum hefur gert tillit til náttúru og umhverfis að föstum þætti í rekstri sínum eða starfi, eða sem á annan hátt hefur unnið stórvirki fyrir náttúru og umhverfi. Verðlaunahafinn þarf að búa yfir norrænu sjónarhorni og starfa á Norðurlöndum og/eða í tengslum við aðila utan Norðurlanda.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Norðurlandaráð veitir einnig bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun.