Ungt umhverfisfréttafólk – Verðlaunaafhending


13:00

Ungu fólki bauðst í vetur að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar. Verkefni bárust frá 10 framhaldsskólum í samkeppnina og verða þau bestu verðlaunuð í streymi frá Norræna húsinu, miðvikudaginn 6.maí kl. 13.00. Sýnd verða brot úr verkefnum sigurvegara og rætt við höfunda um hugmyndina.

Verkefnið, sem er nýtilkomið hjá Landvernd, ber heitið Ungt umhverfisfréttafólk og er unnið í samstarfi við framhaldsskóla á landinu. Verkefnið er rekið í 45 löndum víðsvegar um heiminn og er vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings eftir fjölbreyttum leiðum. Vel hefur verið tekið í verkefnið og verður samkeppnin ansi spennandi að sögn verkefnastjóra.

Dómnefndina skipa Snærós Sindradóttir, fjölmiðlakona, Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri og Ragnhildur Þrastardóttir, blaðamaður.
Auk dómnefndar veita Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta sérverðalaun.

Markmið verkefnisins er að vera valdeflandi vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum t.d. með ljósmyndum, myndbandi, hlaðvarpi, blaðagrein eða teiknimyndasögum.

Verkefnið er alþjóðlegt og rekið í 45 löndum, nánar hér: yre.global
Verðlaunaafhendingin er unnin í samstarfi við Norræna húsið og Norðurlönd í fókus