Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal þekktustu og virtustu bókmenntaverðlauna í Evrópu.
Verðlaunin eru elstu verðlaun Norðurlandaráðs og hafa verið veitt frá árinu 1962 og eru í dag 300.000 danskar krónur.
Verðlaunin hlýtur verk úr hópi fagurbókmennta sem skrifað er á einu af Norðurlandamálunum. Um getur verið að ræða, skáldsögu, leikrit, ljóðasafn, smásagnasafn, ritgerðasafn eða önnur bókmenntaverk sem sem uppfylla kröfur dómnefndar hvað varðar bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli grannþjóðanna og á sameiginlegri arfleifð Norðurlandanna.
Dómnefndina skipa sérfræðingar frá öllum Norðurlöndunum og eru þeir tilnefndir af menningarmálaráðherra hvers lands fyrir sig. Nefndin tilnefnir 12-14 bókmenntaverk sem tilkynnt eru að vori og vinningshafinn er svo tilkynntur á árlegri verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs að hausti.
Margir þekktir rithöfundar hafa hlotið verðlaunin og má þar helst nefna Tomas Tranströmer, Sofi Oksanen, Jonas Eika, Jon Fosse, Sjón, Sara Stridsberg, Veijo Meri, Einar Már Guðmundsson, Herbjørg Wassmo, Per Petterson, Naja Marie Aidt, Gunnar Ekelöf, Monika Fagerholm, Sara Lidman, William Heinensen og Tarjei Vesaas.
Skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs er í Norræna húsinu í Reykjavík.
Hér má lesa meira um Bókmenntaverðlaunin.
Norræna húsið er skrifstofa fyrir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Skrifstofan annast alla daglega vinnu við verðlaunin. Vinnan fer fram í samráði við formann dómnefndar verðlaunanna og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
Skrifstofa verðlaunanna sendir frá sér fréttabréf fjórum sinnum á ári á skandinavísku. Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu með því að senda beiðni um það til skrifstofustjóra verðlaunanna.
Sofie Hermansen Eriksdatter
Skrifstofustjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
+354 5517036
sofie(at)nordichouse.is