LARS MYTTING (f. 1968) er norskur rithöfundur og blaðamaður. Árið 2011 kom bókin Hel ved út en hún fjallar í stuttu máli um við, þ.e. eldivið og allt sem honum viðkemur. Hvernig á að höggva og hvað, hvernig á að hlaða eldiviðarkesti, hvernig best sé að þurrka eldivið, byggja eldstæði, hvenær og hvernig fyrsta vélsögin kom til, umhverfissjónarmið, skógarhögg ofl. Bókin sló í gegn í Noregi og hefur nú verið þýdd á nokkur tungumál. Margir telja ástæðuna að baki óvæntra vinsælda bókarinnar þá að athöfnin að kveikja eld snertir við norsku þjóðarsálinni þar sem eldurinn færir birtu og yl á köldum kvöldum. Árið 2014 kom bókin Svøm med dem som drukner út en hún sló í gegn, jafnt í heimalandi höfundar sem á alþjóðavísu. Um ættarsögu er að ræða þar sem ást, stríð og sjálfsmynd söguhetjanna er til umfjöllunar. Saga ættarinnar fléttast saman við sögulega atburði og heimsstyrjöldina síðari en í henni segir af uppvexti ungs manns sem missir foreldra sína við dularfullar kringumstæður barnungur og elst upp hjá föðurafa sínum og ömmu. Ungi maðurinn fer af stað að leita uppruna síns – og sannleikans um lát foreldra sinna. Bókin hlaut verðlaun bóksala í Noregi árið 2014 og kom út í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar í byrjun árs 2017.
Silje Beite Løken, menningar- og upplýsingafulltrúi í sendiráði Noregs í Reykjavík og þýðandi, stýrir umræðu sem fer fram á norsku.