Tilraun – Æðarrækt


Hvelfing
Aðgangur ókeypis

Opna sýningarskrá

Þverfagleg sýning um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna á Íslandi, í Danmörku og Noregi. Sýningin er byggð á rannsókn á fuglinum og umhverfi hans, á sambandi hans við manninn, hefðinni, æðardúni og því hvernig dýrmæt sjálfbær hlunnindi eru nýtt á Norðurslóðum.

Æðarfuglinn og æðarbændur hafa þróað einstakt samband sín á milli byggt á vináttu og gagnkvæmu trausti og er báðum aðilum til hagsbóta. Æðarbóndinn ver fuglinn gegn vargi og fær að launum dún fuglsins, eitt best einangrandi efni í heiminum. Ef dúnninn er ekki tíndur fer hann forgörðum. Um 4 tonn af æðardúni eru unnin á norðurhveli jarðar ár hvert, þar af rúm 3 tonn á Íslandi.

Tilraun – Æðarrækt er rannsóknarverkefni sem hófst árið 2019. Listamennirnir á sýningunni eru með fjölbreyttan bakgrunn í myndlist, hönnun, sviðslistum, tónlist og arkitektúr. Þátttakendur voru valdir út frá fyrri verkum þeirra og aðferðafræði og einhverjir þeirra paraðir saman til að skapa áhugavert samtal. Hópurinn fór saman í ferðir að kynna sér ólík æðarvörp og hver einstaklingur eða teymi fóru svo á ólíka staði til að kynnast heimi æðarfuglsins enn frekar.

Hlutverk lista er að varpa fram spurningum, rýna í hversdagslega hluti frá nýju sjónarhorni og skapa nýjar leiðir til að leysa verkefni. Æðarfuglum og æðarrækt stendur ógn af hlýnun jarðar, auk breyttra lifnarðarhátta. Fólk flyst úr sveit í borg og fjarlægð við æðarvörpin eykst. Við lítum á verkefnið sem hlekk í því að átta sig á stóra samhenginu, vistkerfinu okkar. Listræn nálgun og skapandi hugsun eru mikilvægt tól í þeirri umræðu.

Æðarkollur hljóma eins og þeim hafi verið sagt eitthvað áhugavert, jafnvel slúður. Úúúú, Úúúú! Það er erfitt að hrífast ekki af þessum fallega kór. Við vonum að verkefnið veiti þér innblástur og þú eigir nokkur Úúúú augnablik á sýningunni og næst þegar þú hittir æðarfugla.

TilraunÆðarrækt verður opnuð í Hvelfingu þann 7. maí klukkan 17:00 og stendur til 31. júlí. 

Sýningastjórar: Hildur Steinþórsdóttir & Rúna Thors

Sýnendur:
Anne Lass, Lisbeth Burian & Rikke Houd
Arnhildur Pálmadóttir & Samuel T. Rees
Auður Ösp Guðmundsdóttir & Hanna Jónsdóttir
Baldur Björnsson & Þórey Björk Halldórsdóttir
Bjarki Bragason
Brynhildur Pálsdóttir & Ólöf Erla Bjarnadóttir
Eygló Harðardóttir
Friðgeir Einarsson & Sigrún Hlín Sigurðardóttir
Gabriel Johann Kvendseth
Hilda Gunnarsdóttir & Loji Höskuldsson
Íris Indriðadóttir & Signý Jónsdóttir
Kristbjörg María Guðmundsdóttir, Ragna Margrét Guðmundsdóttir & Vilborg Guðjónsdóttir
Margrét H. Blöndal
Tanja Levý & Valdís Steinarsdóttir

Sýningin er hluti af HönnunarMars og styrkt af Norrænu Ráðherranefndinni, Hönnunarsjóði og Nordisk Kulturfond.