Þegar bókmenntir umbreyta raunveruleikanum


19:30
Salur

Þann 10. nóvember klukkan 19:30 mun Norræna húsið halda bókmenntaviðburð þar sem skoðað verður hvernig bókmenntir nota vísindaskáldskap, hliðstæða veruleika og framtíðarsögur til að takast á við þemu á borð við náttúruna, sjálfsvitund og samfélagið.

 

Charlotte Weitze og Fríða Ísberg munu ræða hvernig bókmenntir geta tekist á við útópíska og dystópíska veruleika. Auk þess mun samtalið snúa að því hvernig þær nýta þetta í sínum verkum þegar þær takast á við líffræðilegan fjölbreytileika og pólaríseringu samfélagsins.

 

Umræðustjóri er skáldið og bókmenntagagnrýnandinn Þóra Hjörleifsdóttir og mun viðburðurinn fara fram á ensku með lestrum á íslensku og dönsku.

 

Fríða Ísberg (f. 1992) er íslenskur rithöfundur búsett í Reykjavík. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafnið Kláði árið 2021 og hefur verkið verið þýtt á 5 tungumál. Fríða gaf nýlega út sína fyrstu skáldsögu, Merking, fyndna og skarpa framtíðarsögu þar sem ný tækni getur mælt samkennd fólks, en viðhorf fólks til tækninnar skapar mikla félagslega sundrung og pólaríseringu í samfélaginu. Að auki er Fríða meðlimur í Svikaskáldum og bókmenntaganrýnir hjá bókmenntatímariti The Times.

 

Charlotte Weitze (f. 1974) er með meistaragráðu í þjóðsögum og hefur skrifað smásögur, skáldsögur og útvarpsleikrit. Árið 1996 fékk hún Debutant verðlaun Bogforum hátíðarinnar fyrir smásagnasafnið Skifting. Nýjasta skáldsaga hennar, Rosarium, einblínir á tengsl manna og náttúru og blandar Weitze saman töfrum og hinu ótrúlega við realíska og vísindalega atburðarás. Weitze mun taka þátt í viðburðinum í gegnum fjarfundabúnað.