Sjálfsmyndir og snarteikningar: Krot- og krassnámskeið


16:00 - 18:00
Aðgangur ókeypis

Er hægt að nota penna sem gleraugu? Getum við yddað athyglina eins og blýant? Rán Flygenring leiðir þátttakendur í gegnum ýmsar skrítnar og skemmtilegar æfingar og verkefni sem hún notar sjálf til að skerpa skilningarvitin og skrásetja daglegt líf og umhverfi í orð og myndir. Hér snýst málið ekki um að teikna vel, heldur horfa og hlusta í gegnum blýantinn.

Námskeiðið inniheldur m.a. kynningu á nokkrir atvinnukroturum og verkum þeirra, æfingar í snarteikningu á þremur erfiðleikastigum, örnámskeið í njósnateiknun, sjálfsævisögulega karaktersköpun auk teikni- og hugmyndaleikja sem nota má í eigin skissubókar- og dagbókaskrif.

Í tilefni af Norrænni bókmenntaviku og Degi íslenskrar tungu er boðið upp á 2 daga ritlistarnámskeið með Rán Flygenring fyrir 12 ára og eldri.

Kennari er Rán Flygenring en hún hlaut nýlega Barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína Eldgos. 

Ókeypis og öll velkomin!

Rán er af norskum og íslenskum uppruna, fæddist í Osló og ólst upp í Reykjavík. Rán starfar sem sjálfstætt starfandi teiknari og myndhöfundur, stundum í vesturbæ Reykjavíkur og stundum á flakki um heiminn. Rán hefur gefið út hátt í annan tug bóka á Íslandi og í Þýskalandi, bæði ein og í samstarfi við aðra höfunda og bækur hennar og samstarfsfólks verið þýddar á fjölda tungumála. Hún hefur einnig látið til sín taka á sviði snarteikninga á ráðstefnum og fundarhöldum sem og notkun myndrænnar greiningar í stefnumótun og jafnréttismálum. Þá hefur hún málað bæði fjallgöng og veggmyndir, teiknað frímerki og bjórdósir, stofnað lundahótel, teiknað borgarlausnir og leikstýrt myndböndum. Rán hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

Aðgengi: Hvelfinu sýningarrými er í kjallara Norræna hússins. Aðgengi fyrir hjólastóla er með lyftu frá aðalhæð hússins. Aðgengilegt salerni er á aðalhæð hússins og öll salerni eru kynhlutlaus.