Sjálfbær samruni – frásagnir, mannleg samskipti og vitundarvakning
16.00 - 18.00
Annar viðburður af þremur í viðburðaröðinni Sjálfbær samruni, samtal lista og vísinda um sjálfbærni, verður haldinn í Norræna húsinu þann 11. nóvember næstkomandi. Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun stendur að viðburðaröðinni í samstarfi við Norræna húsið og er markmiðið að efla samtal milli lista og vísinda og varpa ljósi á mikilvægi skapandi greina í vegferðinni að sjálfbærri framtíð. Á þessum viðburði beinum við sjónum okkar að sögum eða „narratívum“ samtíma okkar; samskipti, hlustun og von.
Hvernig endurspeglast umhverfismál í frásögnum okkar samtíma? Hvert er hlutverk skapandi greina í að segja sögur sem vekja fólk til vitundar um sjálfbærni og umhverfismál en vekja einnig von um framtíðina? Hvernig tvinnast frásagnir og samskipti saman við neyslumenningu og gildi?
Dagskrá
- „Að hlusta og heyra“ Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ
- „Fótspor“ Þórdís Helgadóttir, rithöfundur og heimspekingur
- „Listin að miðla vísindum“ Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, líffræðingur og umhverfisverndarfulltrúi Ungra umhverfissinna
- „Fleiri fjölfræðinga, takk!“ Sverrir Norland, rithöfundur
- Andrea Vilhjálmsdóttir „Plöntumiðjaðar sviðslistir – Plöntutíð“
Eftir erindin verða pallborðsumræður og að viðburðinum loknum verður boðið upp á veitingar frá Sono matseljum og spjall
Opið verður á myndlistarsýninguna Time Matter Remains Trouble í Hvelfingu Norræna hússins til kl. 17 þennan dag og er tilvalið fyrir gesti að skoða hana en hún fjallar um samspil manns og náttúru.