Málþing: Sjálfbærni, moldin og landið


16:00
Salur
Aðgangur ókeypis

Mold er undirstaða fæðuframleiðslu jarðarbúa, og er mikilvægur þáttur í fjölbreytni lífríkisins og kolefnishringrás jarðar. Jarðvegur hefur gríðarlega mikil áhrif á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Ástand vistkerfa jarðar er víða mjög bágborið með stöðugt minnkandi líffræðilegri fjölbreytni og losun á CO2. Á fáum svæðum jarðar er ástandið jafn slæmt og á Íslandi þar sem landnýting er víða langt því frá að geta talist sjálfbær. Sjálfbær landnýting er nauðsynleg til að koma í veg fyrir hnignun vistkerfa og bætir möguleika á endurheimt þeirra – sem jafnframt stuðlar að bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.

Á málþinginu verður m.a. vikið að mikilvægi moldarinnar sem og nýrri hugsun er varðar sjálfbæra landnýtingu hérlendis, en einnig hindrunum og þróun reglugerða sem ætlað er að færa stjórnsýslu landnýtingar til nútímans. Málþingið felst í stuttum erindum flutt af Ólafi Arnalds, jarðvegsfræðingi, Þorgerði M. Þorbjarnardóttur, formanni Landverndar, Fífu Jónsdóttur, fulltrúa stjórnar Ungra umhverfissinna, Eyþóri Eðvaldssyni, baráttumanni og ráðgjafa, og Bjarna Barkarsyni, skrifstofustjóra um sjálfbæra landnýtingu hjá Matvælaráðuneytinu. Eftir erindin fara fram pallborðsumræður. Málþingið er haldið í tilefni viðurkenningar Hagþenkis á bókinni “Mold ert þú” og áskorana sem felast í því að tryggja sjálfbæra landnýtingu.

Aðgengi að Elissa (salur) er gott, aðgengileg og kynhlutlaus salerni eru á sömu hæð.