-LINES- Gagnvirk hljóð innsetning
11-17
Gagnvirk hljóðræn innsetning / 28. Júní – 3. September / Ókeypis og öllum opin
Staðsetning: Black Box. Opið 11-17.
Gleymdu í smástund fyrirfram mótuðum hugmyndum þínum um hvað tónlist er og hvernig hún eigi að hljóma, og njóttu LINES – þátttökuverks með gagnvirkum hljóðfærum.
Sænska tónskáldið Anders Lind hefur skapað þessa einstöku innsetningu sem kannar einn af grunnþáttum vestrænnar tónlistar: Línur. Línur fastar við veggi, gólf og hangandi úr lofti í samblandi við skynjara og raftæki mynda þrjú nýmóðins hljóðfæri, sem gera þér kleift að skapa tónlist með höndunum. Eltu eða þveraðu línurnar til að skapa þína eigin tónlist – kannaðu, leiktu, lærðu og hlustaðu í hljóðfylltu rými. Innsetningin er bæði fyrir börn og fullorðna og getur jafnvel verið áskorun fyrir reynd tónskáld. Verkið er þáttökuverk sem nýtur sín best þegar fleiri bregða á leik, en einnig er hægt að njóta verksins ein/n síns liðs.
Vertu með og þreifaðu þig áfram í þessum einstaka hljóðheimi!
Anders Lind er tónskáld og listrænn stjórnandi tónlistar við listadeild Umeå háskóla í Svíþjóð. Lind skapar gagnvirk verk og innsetningar auk þess að semja tónverk fyrir sinfóníur, kóra, hljómsveitir og einspilara, yfirleitt í bland við notkun rafmagnstækni. Hljóðsmíðar hans einkennast af tilraunamennsku sem býður hlustandanum með í hljóðrænt ferðalag sem fer út fyrir mörk hins fyrirsjáanlega.
Þér er boðið á Opnun 28. júní / kl. 16-18 / Black Box og gróðurhús
Það er okkur sönn ánægja að segja frá opnun þátttökuverksins LINES í Norræna húsinu, 28. júní n.k. Formleg opnun fer fram á milli klukkan 16-18 sama dag og eru allir hjartanlega velkomnir. Höfundur verksins, sænska tónskáldið Anders Lind verður viðstaddur opnunina og heldur sýnikennslu inn í þennan einstaka hljóðheim á hálftíma fresti.
Boðið verður upp á óáfengar veitingar í gróðurhúsi Norræna hússins.
Kveðja Anders Lind og starfsfólk Norræna hússins