Sjávarskrímsli- skartgripasýning í anddyrinu
Sjávarskrímsli
Skartgripasýningin endurspeglar upplifun okkar á náttúrunni og hvað við veljum að sjá þegar náttúran ögrar okkur?
Hér á árum áður var algengt að fólk mætti sjávarskrímslum á hafi úti, skrímslum og furðuverum sem annaðhvort réðust á fólk eða át. Þeir sem sluppu og náðu í land aftur áttu efni í góða sögu.
Á vísindavef Hí segir: Trú á hafskrímsli virðist hafa verið nokkuð almenn miðað við tíðni þeirra í gömlum heimildum, svo sem í sögunum af dýrlingunum Brendan og Kólumkilla, Konungs skuggsjá og víðar. Í lengri gerð Örvar-Odds sögu koma fyrir tvö hafskrímsli sem svo er lýst og virðist lyngbakurinn vera töluvert skyldur eyfisknum Jasconiusi úr áðurnefndri sögu af heilögum Brendan:Nú mun ek segja þér, at þetta eru sjóskrímsl tvau. Heitir annat hafgufa, en annat lyngbakr. Er hann mestr allra hvala í heiminum, en hafgufa er mest skrímsl skapat í sjónum. Er þat hennar náttúra, at hún gleypir bæði menn ok skip ok hvali ok allt þat hún náir. Hún er í kafi, svá at dægrum skiptir, ok þá hún skýtr upp höfði sínu ok nösum, þá er þat aldri skemmr en sjávarfall, at hún er uppi. Nú var þat leiðar sundit, er vér fórum á millum kjapta hennar, en nasir hennar ok inn neðri kjaptrinn váru klettar þeir, er yðr sýndist í hafinu, en lyngbakr var ey sjá, er niðr sökk.(21. kapítuli) Nánar
Teikningar af þessum sjávarskrímslum má finna á gömlum kortum líkt og þessu:
Sænski skartgripasmiðurinn Lena Lindahl hefur skapað skartgripalínu undir áhrifum frá teikningum af sjávarskrímslum. Listakonan heillaðist af þeim eftir að hún skoðaði gömul landa- og sjókort þar sem sjá mátti allskyns kvikindi í hafinu og augljóst var að ímyndunaraflið hafði fengið lausan tauminn. Skrímslin, sem að öllum líkindum eru uppspuni mannsins endurspegla að mati Lenu hvernig sjómenn hafa upplifað hættur í náttúrunni og segja meira um ímyndunarafl sjómannsins (undir álagi) frekar en náttúruna sem hann fann sig í.
Lena Lindahl hefur lokið meistaranámi í skartgripasmíði og silfursmíði. Hún er fulltrúi í sænska hönnunarsafninu og skartgripir hennar hafa verið sýndir á mörgum alþjóðlegum listasýningum. Eftir að Lena hefur sýnt í Norræna húsinu mun hún sýna verk sín á sýningu European Prize for Applied Arts í Mons Belgíu.