Klassík í Vatnsmýrinni – Kvöldstund með Strauss


20.00

Egill Árni Pálsson, tenór
Kristinn Örn Kristinsson, píanóleikari

Fluttir verða tveir ljóðaflokkar eftir Richard Strauss, Op.10 og Op.19.  Flokkar Strauss eru almennt ekki í frásagnaformi og eru þau sjaldnast flutt sem ein heild en á bak við mörg ljóðin eru áhugaverðar sögur sem tengjast lífi og störfum tónskáldsins. Flokkarnir innihalda auk þess mörg af þekktustu og fallegustu ljóðum skáldsins

Egill Árni Pálsson stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og sótti einkatíma í New York. Að loknu námi flutti hann til Berlínar til náms og starfa. Hann vann til verðlauna í keppnunum Kammeroper Schloss Rheinsberg og Oper Schloss Laubach, kom fram á Classic Open Air hátíðinni í Berlín í Das Lied von Der Erde í Frankfurt(Oder) og Potsdam ásamt Brandenburgisches Staatsorchester Frankfurt. Hann söng eitt aðalhlutverka óperunnar Das Liebesverbot eftir Richard Wagner sem flutt var í óperuhúsinu í Braunschweig, sem hluti af Kammeroper Schloss Rheinsberg. Hann kemur reglulega fram í óperuverkefnum, kirkjutónleikum og á ljóðakvöldum hér heima sem og á erlendri grundu og árið 2016 gaf hann út diskinn „Leiðsla“, safn af íslenskra sönglaga. Egill kennir við Söngskólann í Reykjavík

Kristinn Örn stundaði nám við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskólann í Reykjavík, Southern Illinois University og St. Louis Conservatory of Music í Bandaríkjunum. Að loknu námi kenndi Kristinn Örn við Tónlistarskólann á Akureyri en tók við skólastjórn Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins í Reykjavík árið 1990. Árið 1998 stofnaði hann ásamt fleirum Allegro Suzukitónlistarskólann og hefur starfað þar síðan ásamt því að vera meðleikari við Söngskólann í Reykjavík. Hann hefur komið víða fram á tónleikum hér heima og erlendis  með ýmsum hljóðfæraleikurum og söngvurum, leikið inn á hljómdiska og upptökur fyrir útvarp.

Aðgangseyrir er kr. 3.000, 2.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, ókeypis fyrir nemendur og gesti 20 ára og yngri. Miðar á tix.is og við innganginn. Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið.

Um tónleikaröðina

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum.

Kaupa miða