Klassík í Vatnsmýrinni : Eyrar-rósir

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Tónleikaröðin leggur áherslu á norrænt og alþjóðlegt samstarf. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á „einleikarann“ annars vegar og „kammertónlist“ hins vegar. Til ánægjuauka fjalla flytjendur um efnisskrána á tónleikunum.


20:00

 

EYRAR-RÓSIR
Gitta-Maria Sjöberg, sópran
Irene Hasager, píanó

Næstu tónleikar í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni, verða haldnir miðvikudaginn 16. september kl. 20 í Norræna Húsinu í Reykjavík. Aftur fáum við frábæra gesti frá Norðurlöndum og í þetta sinn eru það sænska sópransöngkonan Gitta-Maria Sjöberg og danski píanóleikarinn Irene Hasager. Þær munu flytja verk eftir Jean Sibelius, Carl Nielsen, Matti Borg, Antonin Dvorak, Giuseppe Verdi, Dmitri Shostakovitch og Joaquín Rodrigo. Þann 17. september mun Gitta-Maria einnig halda meistaranámskeið í söngskóla Sigurðar Dementz.

Gitta-Maria Sjöberg á að baki glæsilegan söngferil bæði sem ljóða- og óperusöngkona, enda eru óperuhlutverk hennar orðin um 40. Hún er verðugur arftaki löndu sinnar Birgit Nilsson og varð fyrst til að hljóta verðlaun úr sjóði sem kenndur er við þá frægu dívu.

Irene Hasager er mjög eftirsóttur með- og undirleikari danskra sem erlendra einsöngvara og einleikara og hefur leikið á tónleikum í Danmörku og öðrum löndum svo sem í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Rússlandi, Grænlandi, Svíþjóð og í Noregi.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr en 1000 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.

Um tónleikaröðina
Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Tónleikaröðin leggur áherslu á norrænt og alþjóðlegt samstarf. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á „einleikarann“ annars vegar og „kammertónlist“ hins vegar. Til ánægjuauka fjalla flytjendur um efnisskrána á tónleikunum.

Starfsárið 2015 er að hluta til helgað söngkonum í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Sólrún Bragadóttir söngkona reið á vaðið í apríl ásamt meðleikara sínum Gerrit Schuil. Í júní kom finnska dúóið Marko Ylönen og Martti Rautio og léku á selló og píanó, og nú sækir sænska sópransöngkonan Gitta-Maria Sjöberg og danski píanóleikarinn Irene Hasager okkur heim. Jón Sigurðsson leikur fyrir okkur heila dagskrá í október með verkum eftir hið merka píanótónskáld, Alexander Scriabin, en 100 ár eru liðin frá dauða hans. Starfsárinu lýkur með því að Auður Gunnarsdóttir sópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari flytja óperuna Mannsröddin eftir Francis Poulenc.

Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Kristín Mjöll Jakobsdóttir, Hlíf Sigurjónsdóttir og Anna Jónsdóttir.

Aðrir tónleikar á starfsárinu 2015

14. október
Scriabin-Að loganum
Jón Sigurðsson, píanó

11. nóvember
Mannsröddin eftir Poulenc
Auður Gunnarsdóttir, sópran
Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó

Sænska söngkonan Gitta-Maria Sjöberg stundaði söngnám við Óperuakademíuna í Kaupmannahöfn. Kennari hennar var finnski bassasöngvarinn Kim Borg.
Frumraun sína þreytti hún árið 1987 við Konunglega danska leikhúsið sem Mimi í óperu Puccinis, La Boheme, og var það upphaf að afar glæsilegum ferli hennar við það hús og um allan heim. Óperuhlutverkin eru orðin um 40 talsins.
Gitta-Maria er ákaflega fjölhæfur söngvari, jafnvíg á ljóðasöng sem og á hádramatísk óperuhlutverk. Hún hefur haldið ljóðatónleika víða um Evrópu, í St. Pétursborg, Tókíó og víðar. Einnig hefur hún sungið inn á fjölda hljómdiska við frábæran orðstír.
Gitta-Maria er vinsæll og eftirsóttur kennari og leiðbeinandi. Árið 2014 stofnaði hún hátíðina Nordic Song Festival í Svíþjóð þar sem fram fer kennsla, tónleikar og listrænar rannsóknir.

Danski píanóleikarinn Irene Hasager nam við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum undir handleiðslu ungverska píanóleikarans Georg Vasarhelyi. Framhaldsnám stundaði hún í Þýskalandi og Frakklandi. Irene hefur starfað sem undirleikari nemenda Kim Borg við Det Kgl. Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Einnig er hún mjög virk sem leiðbeinandi, undirleikari og hefur stjórnað uppfærslum og sýningum hjá m.a. Musikdramatisk Teater, Det Unge Operaselskab, Den Fynske Opera, Den Jyske Opera, Det Kgl. Teater, Det Kgl. Danske Musikkonservatorium og Operaakademiet.
Irene er mjög eftirsóttur meðleikari danskra sem erlendra einsöngvara og hljóðfæraleikara og hefur leikið á tónleikum í Danmörku og öðrum löndum, meðal annars í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Rússlandi, Grænlandi, Svíþjóð og Noregi.