Jóladagskrá Norræna hússins


Í ár býður Norræna hússið upp á hátíðlega stafræna jóladagskrá með bókmennta aðventudagatali, jólabókamarkaði og  stafrænni leiðsögn um húsið. Menningarþátturinn Auður norðursins verður á sínum stað á miðvikudögum og við drögum upp gamla gullmola úr streymisveitunni okkar.

Litla hönnunarbúðin í Hvelfingu verður áfram opin og selur bækur og fallegar norrænar jólavörur fyrir heimilið og í jólapakkann. Í Hvelfingu er einnig hægt að sjá sýninguna Undirniðri en sýningin hefur hlotið mikið lof gesta og snertir á málefnum tengdum kynverund, sjálfsmynd, valdi og öllu því sem ólgar undir yfirborði norrænnar utópíu um jafnréttissamfélag.

Úti í gróðurhúsinu okkar höfum við hengt upp jólaljós og skapað lítinn griðastað fyrir gesti og göngufólk í Vatsnmýrinni. Ef aðstæður leyfa munum við leggja út efnivið í umhverfisvænt jólaskraut sem fólki er velkomið að föndra með og taka með sér heim.

Tvær síðustu helgarnar fyrir jól opnar bókasafn Norræna hússins dyr sínar fyrir almenningi og heldur glæsilegan jólamarkað með nýlegum bókum.  Alla aðra daga höldum við áfram að þjónusta gesti í gegnum tölvupóst með afgreiðslu bóka í gegnum Hvelfingu. Ertu búin/n að ákveða hvað þú vilt lesa í desember? sendu okkur þá póst á bibliotek@nordichouse.is.

  • 12. & 13. desember verður jólabókamarkaður á bókasafni Norræna hússins og Hvelfing hönnunarbúð verður með 15% afslátt á öllum vörum. Komið endilega við og gerið góð kaup. Ef aðstæður leyfa munum við bjóða upp á jólagjögg og tónlist í takt.
  • 19. &. 20. desember er bókasafnið opið fyrir gestum.

Öll jóladagskrá hússins er aðgengileg á vef og Facebook-síðu Norræna hússins.
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda póst á info@nordichouse.is