Höfundakvöld með Söru Stridsberg
19:30
Höfundakvöld með Söru Stidsberg í Norræna húsinu miðvikudaginn 7. nóvember 2018 kl. 19.30. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!
Sara Stridsberg (1972) er menntaður lögfræðingur. Hún hefur skrifað skáldsögur og leikrit, unnið við þýðingar og skrifað greinar um menningu í hinu feminíska menningar- og samfélagsblaði Bang. Hún hefur einnig verið meðlimur í Svenska Akademien (2016-2018).
Stridsberg hefur á stuttum tíma stimplað sig inn sem mikilvægur skáldsagnahöfundur. Fyrsta bók hennar Happy Sally kom út árið 2004 og þegar árið 2007 fékk hún bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Drömfakulteten (2006), fría fantasíu um öfgafeministann Valerie Solanas, sem skrifaði SCUM-Manifesto – Society for cutting up men (1967) og varð þekkt sem konan sem skaut bandaríska listamanninn Andy Warhol árið 1968. Árið 2010 kom skáldsagan Darling River út en á sama tíma hafði Stridsberg skrifað leikhúsverkin Valerie Solanas ska bli president i Amerika (2008) og Medealand (2009), leikritið Dissekering av ett snöfall kom út árið 2012. Skáldaga Stridsberg Beckomberga. Ode til min familj (2014), sem einnig var sett upp sem leikrit, er byggð á æskuminningum hennar úr fjölskylduheimsókn á stærsta geðsjúkrahús Svíþjóðar þess tíma. Tveimur árum seinna kom skáldsagan American Hotel út og haustið 2018 kemur bókin Kärlekens Antarktis.
Viðburðurinn byrjar kl. 19.30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri bókmennta á Borgarbókasafni Reykjavíkur, stýrir umræðu sem fer fram á sænsku. Aðgangur er ókeypis.
Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Í hléi er síðan hægt að njóta léttra veitinga frá AALTO Bistro.
Verið velkomin!
Mynd: Caroline Andersson