Sørine Steenholdt

Höfundakvöld með SØRINE STEENHOLDT


19:30

Höfundakvöld með SØRINE STEENHOLDT

þriðjudaginn 5. september kl. 19.30 / Aðgangur ókeypis.

Heiðrún Ólafsdóttir, sem þýtt hefur bókina Zombíland á íslensku, stýrir umræðu sem fer fram á dönsku.

Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins Sørine Steenholdt frá Grænlandi.

Sørine Steenholdt fæddist í Paamiut á Suður-Grænlandi 1986. Æskuheimili hennar þar einkenndist af misnotkun og vanrækslu eins og hún hefur lýst sjálf. Eftir menntaskóla flutti hún til Nuuk til að læra tungumál, bókmenntir og fjölmiðlafræði við háskólann. Fyrir smásöguna Du skal adlyde din mor (Hlýddu móður þinni), sem fjallar um móðurhlutverkið og ofbeldi, hlaut hún verðlaun og var sagan valin til birtingar í smásagnasafninu Ung i Grønland – ung i verden  sem kom út 2012.

Sørine Steenholdt skrifar á grænlensku, móðurmáli sínu. Fyrsta bók hennar, smásagna- og ljóðasafnið Zombiet Nunaat, kom út 2015. Hún fjallar um nauðganir, sjálfsmorð, hassfíkn, misnotkun og ofbeldi. Bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðsins og þýdd á bæði dönsku og íslensku. Í íslenskri þýðingu Heiðrúnar Ólafsdóttur heitir bókin Zombíland.

 

AALTO Bistro

Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu.