Bjartsýnisfólk (NO) – Kvikmyndasýning


18-20:30

Norræna húsið býður til sýningar á blakheimildarmynd og orkusúpu frá AALTO Bistro þann 27. apríl í tilefni af hinu árlega blakmóti Öldungamót!

Áhugamenn, atvinnumenn, áhorfendur og forvitnir eru hjartanlega velkomnir!

Boðið verður upp á súpu frá kl. 18 / Myndin er sýnd frá kl. 19:00 – 20:30 / Verð: 1.600 / Allir velkomnir

Hægt er að kaupa miða á tix.is og við hurð.

Komdu þér vel fyrir á langborðinu hjá okkur og fáðu þér orkuríka súpu frá AALTO Bistro sérstaklega gerð fyrir blakspilara. Kvöldverðurinn er opinn öllum, atvinnumönnum, áhugamönnum, áhorfendum og forvitnum. Skundað er inn í sal og hefst þá heimildarmyndin Bjartsýnismaðurinn. Myndin er svo sannarlega staðfesting á að aldur er afstæður og ætti ekki að stöðva neinn með ástríðu fyrir blaki!

Myndin er sýnd með norsku tali og enskum teksta.

 

Bjartsýnisfólk / Optimisterne

Þrátt fyrir vikulegar æfingar hefur blakliðið Bjartsýnikonur, sem saman stendur af konum á aldrinum 66-98 ára, ekki spilað einn einasta keppnisleik í 30 ár. Þeim langar að keppa, en við hvern? Orðrómur fer af stað og hópur af myndarlegum sænskum körlum, hinu megin við landamærin, ákveður að bjóða sig fram.

Í myndinni fylgjumst með Goro (98 ára), Lillemor (88 ára), Birgit (69 ára) og hinum í liðinu undirbúa sig fyrir stóra daginn. Keppnisplanið er klárt: Hlátur, samheldni, hekludúllur og kannski einhverjir myndarlegir sænskir karlar? Allt þetta skilar ógleymanlegri ferð til Svíðþjóðar og stórkostlegum landsleik í blaki. Kannski geta nokkrir blakspilarar sýnt okkur að æskudýrkun nútímans er ekki á rökum reist og að við ættum heldur að dýrka þá sem eldri eru.

Bjartsýnisfólk er heimildarmynd eftir Gunhild Westhagen Magnor og framleidd af Skofteland Film AS.

 

Norræna húsið sýnir myndina í samstarfi við sendiráð Noregs í Reykjavík og kvikmyndamiðstöð Noregs í tilefni af Öldungamótinu.

„Mynd sem yljar manni um hjartarætur.“ – Fredristad Blad

„Þú færð bókað nýja sýn á aldri, reisn og virði manneskjunnar á seinni árum.“ – Hamar Dagblad

 

Myndin hefur unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal The Ray of Sunshine á Norwegian International Film Festival, Haugesund og Kanon Award fyrir bestu klippinguna.

Sýnishorn