Æðarfugl & arkitektúr – Barnasmiðja


13:00 - 15:00
Barnabókasafn
Aðgangur ókeypis

Æðarfugl & arkitektúr
Smiðja fyrir börn og ungmenni í tengslum við sýningu á HönnunarMars.

Æðarfuglinn getur ílla varið sig og fjölmargar hættur steðja að þessum einstaka fugli. Váfuglar, minkar, refar og veður ógna honum og í gegnum tíðina hafa verið farnar skapandi leiðir til þess að vernda fuglinn. Fuglahræður, veifur og lítil hús eru á meðal þess sem hefur verið gert í gegnum tíðina til að vernda fuglinn og munu gestir verða hvattir til að beita hugmyndarfluginu við gerð skúlptúra sem gætu aðstoðað æðarfuglinn á varptímanum. Notast verður við fjölbreyttan efnivið og aðferðir í anda ARKKI – sem er finnskur arkitektaskóli fyrir börn og ungmenni. 

Smiðjan er innblásin af nýrri sýningu sem opnar sama dag í Hvelfingu, sýningarrými Norræna hússins sem ber heitið Tilraun – Æðarrækt. Á sýningunni eru verk sem er afrakstur samtals og samstarfs myndlistarmanna, hönnuða, sviðslistamanna, tónlistarmanna og arkitekta, sem snúa að sjáflbæru sambýli æðarfugla og manna.

Myndlistarmaðurinn og listkennarinn Björk Viggósdóttir, leiðir námskeiðið. Björk lauk B.A námi í myndlist árið 2006 frá Listaháskóla Íslands og meistaranám í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands og námi í Listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands. Björk starfar sem myndlistarmaður og einnig sem listkennari við Myndlistarskólann í Reykjavík en er einnig með bakgrunn í arkitektúr, hönnun, tónlist og listdansi. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og víða erlendis. Þar á meðal í Bandaríkjunum, Suður Ameríku, Evrópu og Asíu. Björk hefur meðal annars verið með einkasýningar á Íslandi í Gallery Þoku 2013, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi D sal 2011 og Hafnarborg 2013. Björk vinnur verk sín oft í marga miðla þar sem myndmálið er oft túlkað þannig að leikið er með öll skynfæri áhorfandans. Björk skapar innsetningar sem kalla fram ákveðna skynjun í rými. Þær krefjast oft þáttöku áhorfandans og hvetja þá til að hörfa frá rökvísum hugsunum og hinum áþreifanlega raunveruleika og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. http://bjorkviggosdottir.com/