Tónlistarveisla frá Grænlandi og Íslandi


16-18

Í tilefni þjóðhátíðardags Grænlendinga býður sendiskrifstofa Grænlands til tónlistarveislu í Norræna húsinu Sæmundargötu 11, sunnudaginn 16. júní kl. 16-18.

Boðið verður upp á klassíska, popp- og óperutónleika og léttar veitingar að þeim loknum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. 

Hr. Jacob Isbosethsen aðalræðismaður Grænlands á Íslandi sér um að kynna hátíðina. Frú Vivian Mozfeldt formaður grænlenska þingsins heldur þjóðhátíðarræðu og í kjölfarið hefjast u.þ.b. 90 mínútna langir tónleikar í samvinnu við Norræna húsið.

Sætafjöldi er takmarkaður, 80 sæti eru í salnum. Tónleikarnir eru opnir öllum og því gott að mæta tímanlega.

Grænlenski tenórsöngvarinn Josef Lund Josefsen syngur ásamt Halldóru Ósk Halldórsdóttur óperusöngkonu við undirleik Hrannar Þráinsdóttur píanóleikara og danska fiðluleikarans Peters Andreas Nielsen. Síðan koma á svið grænlensku poppsöngvararnir Nina K. Jørgensen, Arnannguaq R. Olsen og Hans Peter Bay og syngja sín uppáhaldslög.

Sýningin „Porcelain Souls“ eftir grænlenska listamanninn Inuuteq Storch hangir uppi í Atrium og eru gestir hvattir til þess að skoða hana.

 

 

Viðburðardagatal