Bashar Farahat heldur erindi


12:00-13:00

Bashar Farahat, læknir, flóttamaður og þolandi pyndinga frá Sýrlandi heldur erindi á Íslandi.

Sýrlenski læknirinn og flóttamaðurinn Bashar Farahat heldur erindi um varðhaldsvist í Sýrlandi, kerfisbundnar og útbreiddar pyndingar og aðra illa meðferð í varðhaldi en sjálfur sætti hann pyndingum í fangelsi, langvarandi áhrif pyndinga og lífið að lokinni fangavist. Bashar Farahat fjallar einnig um flóttamannastrauminn frá Sýrlandi.

Hátíðarsalur Norræna hússins, fimmtudaginn 26. nóvember frá kl. 12 til 13.
Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Dr. Bashar Farahat er gestur Íslandsdeildar Amnesty International og heimsókn hans er hluti af árlegu Bréfamaraþoni samtakanna þegar hundruð þúsunda koma saman og skrifa bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og senda kveðjur til þolenda brotanna.
Dr. Bashar Farahat er 31 árs læknir frá litlu þorpi í norðurhluta Sýrlands. Hann stundaði sérfræðinám í barnalækningum í Aleppo í Sýrlandi og var á þriðja ári af fjórum í starfsnámi á spítala þegar hann var handtekinn í júlí 2012 fyrir að vera andsnúinn stjórnvöldum. Hann var sakaður um þátttöku í mótmælum, fyrir að gera grein fyrir fjölda óbreyttra borgara sem féllu í valinn af völdum stjórnvalda og fyrir að hjálpa mótmælendum á bráðabirgðaspítala. Hann var leystur úr haldi í janúar 2013 en var handtekinn á ný í apríl sama ár. Bashar Farahat sætti margvíslegum pyndingum á meðan hann var í haldi.
„Ég var handtekinn árið 2012 og var í fangelsi í 168 daga. Þeir pynduðu mig en mér fannst lífið innan fangelsins enn erfiðara. Á meðan ég var í haldi sá ég varla til sólar. Það voru um 100-120 manns í haldi í litlum klefa (5m x 6m) svo við urðum að skiptast á að liggja eða standa. Þeir fóru með mig í yfirheyrslur þar sem þeir börðu mig með hnefum og málmstöng og eitt skipti var ég látinn hanga á höndunum. Þeir reyndu að fá mig til að viðurkenna aðild annarra. Ég gerði það ekki.“
Ein mikilvægasta stundin í lífi Bashar var þegar hann var leystur úr haldi í fyrra skiptið.
„Í fangelsinu var fjölskyldum leyft að koma í heimsókn á fimmtudögum. Einn miðvikudag var mér sagt að ég yrði leystur úr haldi daginn eftir. Vinir mínir höfðu ætlað að heimsækja mig þennan fimmtudag en mér tókst ekki að segja þeim að láta það ógert að koma. Þennan fimmtudag voru 100 einstaklingar leystir úr haldi í 5 til10 manna hópum og ég var í síðasta hópnum. Í fangelsinu var gangur þar sem fangar stóðu frammi fyrir tvenns konar niðurstöðu, að vera leystir úr haldi eða fluttir í annað fangelsi. Ég hélt að ég yrði fluttur í annað fangelsi. Ég gekk inn ganginn og þar var maður sem stóð fyrir framan hurð og hélt á vopni. Hann spurði mig hvort ég héti Bashar og ég játti því hikandi. Hann sagði mér að það væri stór hópur af fólki fyrir utan sem hefði komið að heimsækja mig og vissi ekki að ég væri að losna úr haldi. Hann sagði: „Við skulum koma þeim á óvart.“ Hann fór með mig út og ég sá foreldra mína ásamt fimmtán vina minna.“
Líf hans tók stakkaskiptum vegna handtöku hans. Þegar hann var leystur úr haldi í byrjun árs 2013 fékk hann ekki að snúa aftur í starfsnámið á spítalanum þar sem yfirvöld voru búin að setja hann á svartan lista. Þremur mánuðum síðar var hann handtekinn á ný. „Ég sat á kaffihúsi með hópi af fólki þegar öryggissveit kom til að handtaka blaðakonu sem var með okkur og starfaði á ólöglegri sjónvarpsstöð. Þeir handtóku okkur öll sem voru með henni. Klefinn okkar var jafnvel minni en hinn, hann var um 4 x 3,5m og það voru um 60 einstaklingar í klefanum. Ég var í haldi í 5 mánuði.“ Þegar Bashar var leystur úr haldi í seinna skiptið í september 2013 voru flestir vina hans komnir úr landi og því var lausn hans ekki jafn gleðileg og sú fyrri.
Bashar var síðar kallaður í stjórnarherinn eða ella yrði hann handtekinn í þriðja sinn. Hann neitaði að gangast við því og flúði því til Líbanon. Þar sem hann kom ólöglega inn í landið átti hann alltaf á hættu að vera handtekinn en það var ekki það eina sem hann óttaðist. „Vinir mínir í Sýrlandi voru handteknir og ég sá þá í sjónvarpinu segja að ég og annar vinur værum hryðjuverkamenn sem börðumst gegn stjórnvöldum. Þeir voru líklega neyddir til þess en það er ástæðan fyrir því að jafnvel í Líbanon er ég hræddur um að vera tekinn af lífi. Ég hef misst alla von um að komast aftur til Sýrlands.“
Eftir fimm mánuði í Líbanon leitaði hann til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðuðu hann til að komast til Bretlands. Í mars á þessu ári, eftir 16 mánaða dvöl í Líbanon, fór hann til Bretlands en þar fékk hann dvalarleyfi af mannúðarástæðum til fimm ára.