15:15 Tónleikasyrpan


15:15

Þorsteinn Hauksson – portrett

 

Caput- hópurinn leikur portrett tónleika með verkum Þorsteinn Hauksson í 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu, sunnudaginn 7. febrúar kl. 15.15.

Þorsteinn Hauksson (1949) er helsti frumkvöðull íslenskrar tölvutónlistar. Verk hans eru afar fjölbreytt, allt frá einleiksverkum til hljómsveitarverka, þar sem tölvuhljóð gegna mikilvægu hlutverki.
Þorsteinn stundaði nám í tónsmíðum, m.a. við Stanford háskóla í Kaliforníu. Þá var hann í tvö ár við tónsmíðar og rannsóknir í IRCAM-tölvutónlistarmiðstöðinni í París stuttu eftir að Pierre Boulez stofnaði hana. Á þeim tíma pantaði Ircam fyrir hönd Pompidou-listamiðstöðvarinnar í París verkið Are We? af Þorsteini og var það frumflutt af Ensemble InterContemporain í viðurvist Pierre Boulez, Madame Pompidou, ekkju Frakklandsforseta og Bernadette Chirac, þáverandi borgarstjórafrúar í París.
Þorsteinn hefur lengst af búið erlendis – nú síðast í Strassborg í Frakklandi. Tónlist hans hefur verið flutt víða um heim en heyrist afar sjaldan á Íslandi. Hér mun því gefast einstakt tækifæri til að kynnast tónlist Þorsteins frá ýmsum tímum.
Þorsteinn hefur þrisvar verið tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Eitt þeirra verka er cho, fyrir flautu og tölvuhljóð, sem Þorsteinn samdi fyrir Kolbein Bjarnason, og flutt verður á tónleikunum í Norræna húsinu.
Elsta verk tónleikanna er Psychomachia fyrir sópran og selló, frumflutt í Gautaborg 1987, pantað af Nordisk Konservatorieråd. Einsöngvari er Marta Guðrún Halldórsdóttir. Verkið er hluti af óratoríunni Pscyhomachia, sem frumflutt var í Skálholti nokkrum árum síðar. Nýjasta verkið á tónleikunum er Strengjakvartett eitt (2015) og er það frumflutningur.
Auk verka Þorsteins verður rafverk Karlheinz Stockhausen, Gesang der Jünglinge (1955) flutt – í fyrsta sinn á Íslandi eftir því sem næst verður komist – í sinni upprunalegu víðóma útgáfu. Gesang der Jünglinge, þar sem drengjasópran og rafhljóðum er teflt saman, er hornsteinn í raftónlist 20. aldar og skipti sköpum fyrir Þorstein – sem heyrði verkið fyrst þegar hann var tíu ára.

Efnisskrá
Sextett fyrir flautu, óbó, klarinettu, fiðlu, selló og kontrabassa (2000)
Bells of Earth I fyrir carillon, slagverk og tölvuhljóð (1994)
Psychomachia fyrir sópran og selló (1987)
Cho fyrir flautu og tölvuhljóð (1992)
Karlheinz Stockhausen: Gesang der Jünglinge – Rafverk (1955)
Strengjakvartett eitt (2015 – frumflutningur)
Miðaverð er 2000kr og 1000kr fyrir öryrkja, eldri borgara og nemendur.