15:15 Tónleikasyrpan “Vor í Paris”


15:15

Vor í París – Kammerhópurinn Camerarctica

Vor í París er yfirskrift tónleika kammerhópsins Camerarctica sem fram fara í 15.15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu, sunnudaginn 10. apríl kl. 15.15.

Leikin verður frönsk tónlist sem tengist vorinu, náttúrunni og gleðinni í París.

Á efnisskránni verða eftirtalin verk ; Tarantella eftir Camille Saint-Saëns fyrir flautu, klarinettu og píanó, Svíta eftir Darius Milhaud fyrir fiðlu, klarinettu og píanó, Dans geitarinnar eftir Arthur Honegger og Syrinx eftir Claude Debussy fyrir einleiksflautu og Tríó eftir Gabriel Fauré sem heyrist nú í umritun fyrir klarinettu selló og píanó.

Fram koma: Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Ármann Helgason klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari.

Tónleikarnir taka um klukkutíma þar sem Camerarctica leikur á vorið með franskri eðaltónlist.

Tónlistarhópurinn Camerarctica hefur starfað frá árinu 1993. Félagar hópsins hafa meðal annars leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni, kennt hljóðfæraleik við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu og komið víða fram sem einleikarar. Camerarctica hefur vakið sérstaka athygli og hlotið lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Mozart á árlegum kertaljósatónleikum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á strengjakvartettum Shostakovitch og Bartók á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík. Hópurinn hefur m.a. leikið á Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, 15:15 tónleikasyrpunni og á Norrænum sumartónleikum í Norræna húsinu, Salisbury hátíðinni í Bretlandi og gefið út geisladisk með verkum eftir W. A. Mozart.

Miðasala er á www.tix.is og við innganginn.

Miðaverð er 2000 kr. en 1000 kr. fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn