Sýningarsalur Norræna hússins opnar að nýju þann 24. janúar 2020

Sýningarsalur Norræna hússins opnaði að nýju þann 24. janúar 2020 með finnsku myndlistarsýningunni LAND HANDAN HAFSINS.

Í mars 2019 var sýningarsal Norræna hússins lokað vegna vatnsleka. Í kjölfarið hófust umtalsverðar viðgerðir á rýminu og salurinn endurnýjaður í upphaflegri mynd. Lagt hefur verið nýtt gólfefni og  loftræstikerfi ásamt því sem opnað hefur verið á milli tveggja rýma sem áður voru aðskilin.  Steinveggir, tréhurðir og trébitar í loftinu setja svip á mínímalískan salinn sem býður upp á mikla möguleika fyrir myndlist af öllu tagi. Fyrir framan salinn opnar Hönnunarverslun Norræna hússins en hún var áður staðsett á efri hæð hússins. Verslunin mun selja gjafavöru eftir norræna hönnuði og arkitekt hússins, Alvar Aalto.

Hvelfing
Hvelfing er nýtt nafn á sýningarsal Norræna hússins. Hvelfingin er undirstaða hússins og í hvelfingunni eru verðmætustu gripirnir varðveittir. Í sýningarrýminu verður listin hluti af norrænni samfélagsorðræðu. Í Norræna húsinu er lögð mikil áhersla á jafnrétti, sjálfbærni og fjölbreytileika og mun það endurspeglast í sýningarskránni í ár. Sýningarnar verða ýmist settar upp af Norræna húsinu eða í samstarfi við aðra.

Fjórar sýningar eru fyrirhugaðar á árinu 2020
Fyrst verður samsýning finnsks listafólks, Land handan hafsins, sem Pro Artibus stofnunin hefur veg og vanda af. Í apríl opnar sýning í tilefni hálfrar aldar afmælis íslenskrar grafíkur og í sumar stendur húsið að sýningu í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og Platform Gátt á hennar vegum sem mun kynna ungt og upprennandi listafólk á Norðurlöndum. Í haust opnum við síðan stóra og glæsilega samsýningu í Norræna húsinu sem fjallar um jafnrétti og kyn í norrænu samhengi. Á sýningunni munu margir af eftirsóttustu listamönnum norðurlandanna sýna. Allar nánari upplýsingar um sýningar hússins verða birtar á vef Norræna hússins þegar nær dregur.

Sagan
Sýningarsalur Norræna hússins var vígður árið 1971, þremur árum eftir að húsið opnaði. Ivar Eskeland, fyrsti forstjóri Norræna hússins, áttaði sig fljótlega á því að skortur var á sýningarrými í Reykjavík og hóf árið 1969 undirbúning að því að innrétta sýningarsal í lausu rými í kjallara hússins. Norðurlöndin tóku þátt í að fjármagna verkið. Árið 1971 var sýningarsalurinn tekinn í notkun og gegndi hann frá upphafi mikilvægu hlutverki í myndlistarlífinu í Reykjavík. Ýmsir áhugaverðir listamenn frá Norðurlöndum hafa sýnt þar í áranna rás. Sem dæmi má nefna Ju- hani Linnovaara, Roj Friberg, Ragnheiði Jónsdóttur og Hafsteinn Austmann.