Namm, namm, namm – Listviðburður
14:00-17:00
Jamm, Namm, Sko, Oh viðburðaröðin er framlenging á myndlistarsýningunni Af Stað! sem stendur yfir í Norræna húsinu frá 1. desember til 12. janúar.
Í viðburðaröðinni munu vel valdir listamenn kafa djúpt í neyslumenningu samtímans og/eða áhrif hennar á umhverfi okkar og lifnaðarhætti með verkum sínum alla aðventuna í Norræna húsinu.
Hvern sunnudag í aðventunni er einblínt á sérstakt viðfangsefni og þriðja í aðventu beinum við sjónum að framleiðslu eða Namm, namm, namm.
„Það vefst ýmislegt fyrir okkur. Skítur í hverju horni, sama hversu oft er farið yfir gólfin. Við grípum plast í rokinu og hengjum það í gluggana, innan um ljósaseríur. Fjölmenning í pulsubrauði á boðstólnum“
Þátttakendur
Myndbandsverk – sýnt kl. 15:00.
Smaranda Ursuleanu – For a healthy lifestyle-Exercise at least 30 minutes every day
Tilraunakennt myndbandsverk, eftir rúmönsku myndlistakonuna Smaranda Ursuleanu, sem samanstendur af sjónvarpsefni frá Austur-Evrópu sem var áberandi birtingarmynd stigmögnun kapítalisma á því svæði eftir fall kommúnismans.
Gjörningar – kl. 14 – 17 (Vagninn hefst kl. 17 og þarf að kaupa miða fyrirfram á tix.is)
Wiola Ujazdowska – I am only cleaning here
Ég er bara að þrífa er 4 – 5 klukkutíma gjörningur sem felst í því að Norræna húsið er þrifið af listamanninum. Með gjörningnum vill Wiola benda á efnahagslega og félagslega stöðu innflytjenda frá Austur-Evrópu í íslensku samfélagi.
Gréta Jónsdóttir – Svið árangur m. stúku
Kveðja frá listamanni: Verið velkomin! Endilega fáið ykkur drykk og komið ykkur vel fyrir í sæti eða bara eins og ykkur líður sem best. Ég vil þakka öllum sem eru hér, takk kærlega fyrir að koma og fagna hér með mér á þessari stóru stundu. Þessi dagur er alveg svakalega stór og mikið afrek í mínu lífi. Ég kann virkilega mikið að meta að þið ákváðuð vera hér með mér að hvetja mig áfram. Þið eruð hér til staðar fyrir mig sem mínir vinir og vandamenn en einnig mínir gestir á þessari stundu. Það er ekki oft sem að fólk fær að fagna svona stórum áfanga og afreki. Ef ég ætti að líkja þessu við eitthvað væri þetta svipað og að vinna ólimpíugull eða því að fá háttvirt verðlaun.
Birkir Mar Hjaltested – @brenndur kemur alla sunnudaga til að spjalla við gesti um hitt og þetta og veitir innsýn í áhrifamikið líf sitt. Komdu í Norræna húsið á sunnudögum og fáðu eiginhandaáritun á ljósmynd eða annan varning.
Sólbjört Vera Ómarsdóttir – Bragð
Milli 15 – 17 alla sunnudaga, býðst ykkur að koma og bragða með mér. Komiði í bragð-brunch! Hlakka til að sjá ykkur.
Vagninn
Vagninn er matarupplifunarverk þar sem íslenskt samfélag er skoðað í gegnum mat og matarmenningu. Á matseðlinum finnur þú afbrigði af hinni klassísku íslensku pylsu, innblásna af hinum ýmsu menningarhópum sem búa á Íslandi – vafna inn í altæka matarupplifun.
Vagninn er tilraun til að auka samskipti, samtal og flæði hugmynda á milli mismunandi menningarhópa á Íslandi, á lifandi og skemmtilegan hátt.
Vinsamlegast athugið: Vagninn er ólíkur hinum gjörningunum að því leyti að hann byrjar kl. 17:00 og kostar 1.670 kr. Vagninn er gagnvirt matarupplifunarverk þar sem íslenskt samfélag er skoðað í gegnum mat og matarmenningu. Þar er boðið upp á sérstök afbrigði af hinni klassísku íslensku pylsu, innblásin af hinum ýmsu menningarhópum sem búa á Íslandi – vafin inn í altæka matarupplifun. Miðasala á tix.is .