Land handan hafsins


Húsið er lokað vegna samkomubanns

Um sýninguna

Land handan hafsins minnir á tangólag. Og það vill líka svo til að Satumaa (Land draumanna) er nafn á vinsælum finnskum tangó þar sem sungið er um undursamlegan en óljósan stað þar sem alla dreymir um að komast til. Angurvær textinn er dæmigerður fyrir útþrá Finnans til framandi landa og um leið endurspeglar hann mátt dagdraumanna og óskir okkar um fyrirheitna landið.

Samspil myndlistar og fantasíu er einnig kjarninn í verkum finnsku listamannanna fimm sem hér veita gestum innsýn í hugmyndir sínar og drauma um betri heim. Sýningin leiðir okkur inn í heim eftirsjár og dagdrauma en sýnir okkur einnig hvað gerist þegar ólíkir heimar rekast á. Hún varpar fram spurningunni: hvort reynsluheimur eins hafi meira gildi en annars?

Listafólkið birtir í verkum sínum sögulegar og ímyndaðar sviðsmyndir sem afhjúpa um leið takmörk okkar eigin reynsluheims. Á þann hátt undirstrika verkin mikilvægi og gildi samkenndar. Listamennirnir víla ekki fyrir sér að afhjúpa afl ímyndunarinnar í listinni en leggja jafnframt áherslu á mátt hennar til að breyta fólki og heiminum. Þeim er frjálst að leita hvert sem er og hvernig sem þeim sýnist en getum við sem áhorfendur fylgt þeim á mið og veruleika ímyndunarinnar með nógu frjálsum huga?

Listamenn og verk þeirra

Í verkinu Oblivion – O Blif Igen (2015) skrásetur Marjo Levlin (f. 1966) ferðir sínar frá bernskuslóðunum í Maalahti til Colorado og Kaliforníu þar sem hún fetar í slóð ættingja sinna sem fluttu til Vesturheims. Fortíð og nútíð fléttast saman í ljóðrænu verki sem endurspeglar napran veruleika innflytjenda sem dreyma um betra líf. Sögumaður verksins er í fyrstu persónu og hann tekur okkur með sér í ferðalag þar sem frásögnin rennur inn í nútímann.

Marjo Levlin CV Ensku

Í Rauðri arfleifð (2018) fjallar Carl Sebastian Lindberg (f. 1978) um finnsku borgarastyrjöldina og hvaða áhrif hún hefur haft í fjölskyldum, kynslóð fram af kynslóð. Langafi listamannsins barðist með þeim sem lutu í lægra haldi. Hann var fangi í herbúðum óvinarins og risti fangavistin djúp sár í Lindberg-fjölskylduna sem öld síðar eru enn ógróin. Verkið kallar fram áleitnar spurningar um vald ríkisins gagnvart einstaklingnum, um það hvernig saga þjóðar og sögur einstaklinga fléttast saman.

Carl Sebastian Lindberg CV Ensku

Susanna Majuri (1978 -2020) hefur starfað og sýnt margsinnis á Íslandi. Hún fléttar saman í ljósmyndum sínum ólíka heima og afhjúpar í þeim augnabliks nánd um leið og hún gefur til kynna að hinn sanni viðmiðunarrammi liggi handan þess sem blasir við augum okkar. Í verkum Susönnu dregur ljósmyndin fram draumkenndan og dulúðugan heim þar sem ljóðrænt myndefni ber okkur inn í fjölmörg lög veruleikans.

Susanna Majuri Cv Ensku

Pauliina Turakka Purhonen (f. 1971) vinnur þrívíð textílverk og sækir sér innblástur í bernskuminningar um miðaldaskúlptúra. Hún ögrar okkur um leið og hún kannar efnisáferð og listasöguna. Hún notar andlit sitt og ástvina sinna sem myndefni í stórkostlegum sviðsmyndum sem draga upp margbrotna tilveru milli himnaríkis og helvítis.

Pauliina Turakka Purhonen CV Ensku

Málverk Eriks Creutziger (f. 1982) hafa bæði líkamlega og sálræna nánd. Þeir heimar sem hann skapar eru ef til vill glataðar paradísir eða óljósir staðir en vekja engu að síður upp sterkar tilfinningar hér og nú. Fantasían getur vissulega verið flótti frá veruleikanum en hún er engu að síður hæfileikinn til að prófa eitthvað allt öðruvísi. Í málverkum listamannsins er sett fram tilgáta og reynt að sannfæra okkur um leið og þau tjá fegurð og gildi margræðninnar.

Erik Creutziger CV Ensku

 

Leiðsagnir og vinnusmiðjur

Norræna húsið býður upp á ókeypis leiðsögn um sýninguna og vinnusmiðjur fyrir börn þar sem unnið er með þema sýningarinnar og leikið með liti.

Leiðsagnir fyrir fullorðna

Vinnusmiðjur fyrir börn

Pro Artibus stofnunin er framleiðandi sýningarinnar og sýningarstjóri er Juha-Heikki Tihinen. Sýningin var sett saman í framhaldi af samsýningu íslenskra samtímalistamanna, By Water – Icelandic artists on the shores of Finland, sem var sett upp í Helsinki og Tammisaari 2016.

Mynd í banner er eftir Susanna Majuri; Börn og himinn (2017).
Aðgangur á sýninguna er ókeypis.
Sýningin er opin þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 10 til 17.
Vinsamlegast athugið að Norræna húsið er  lokað á mánudögum.