Kveðja af heimaskrifstofunni: Samskiptafjarlægð

Þessi texti er þýddur úr sænsku

Nú bý ég við einangrun á eyju í fleiri þúsund kílómetra fjarlægð frá minni fósturjörð, frá vinum mínum og ættingjum. En ég hef það gott. Ég hef fjölskylduna mína og ég get sinnt skemmtilegasta starfi sem hægt er að hugsa sér. Það kom mér á óvart hvað umskiptin reyndust auðveld, að yfirgefa lifandi vinnustað sem iðaði af mannlífi og taka upp fjarvinnu að heiman. Ég sakna að sjálfsögðu gönguferðanna á morgnana gegnum fuglafriðlandið á leið til vinnu í fallega húsinu í Vatnsmýrinni. Ég sakna starfsfólksins, gestanna og samstarfsaðila hússins. En það bjargast. Þrátt fyrir einveruna á ég mikil samskipti við annað fólk þökk sé hinni stafrænu tækni.

Í síðustu viku fékk ég mér rauðvínsglas í góðum félagsskap. Það var fjarfundur í vínklúbbnum mínum í Finnlandi og í fyrsta sinn í rúmt ár gat ég tekið þátt. Við skröfuðum um heima og geima (mest um heimaskóla en líka um kvíða og einangrun) þar sem við sátum heima hjá okkur hvert í sínu horni. Yfirleitt er ég fjarri góðu gamni búandi á íslandi en nú brá svo við að ég gat verið með og það var í raun alveg dásamlegt.

En mér er hugsað til þeirra sem sitja einir heima og hitta engan annan í netheimum. Ég hugsa líka til þeirra sem eru með lítil börn og geta hvergi farið. Og ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem við í Norræna húsinu getum gert?

Hafðu samband
Norræna húsið er mikilvægur fundarstaður fyrir marga. Þrátt fyrir að húsið sé lokað viljum við vera til staðar og gera starfsemi hússins aðgengilega. Við leitum sífellt nýrra leiða og erum að prófa okkur áfram. Prjónaklúbbur Norræna hússins er kominn á samfélagsmiðlana og við stefnum að því að opna nýja og betrumbætta streymisveitu um miðjan næsta mánuð.  Þar munum við streyma í háum gæðum vönduðum viðburðum, tónleikum og ráðstefnum.  Allt þetta langar okkur að gera í samráði við ykkur. Á heimsíðu Norræna hússins höfum við sett upp tillögubox sem við hvetjum ykkur til að nota. Við viljum endilega vita hvers þið saknið og hvað við getum gert til að koma til móts við ykkur.

Næst langar mig að skrifa um að yfirfæra myndlist í stafrænt form og ég vill endilega heyra ykkar hugleiðingar um málið. Hægt verður að setja inn athugasemdir undir færslunni á Facebook.

Farið varlega á þessum skrýtnu tímum og hugsið vel að ykkar nánustu <3

Kær kveðja
Sabina

Lesa Listin í netheimum