Barna- og ungmennastarf

Verið velkomin í heimsókn í Norræna húsið. Við tökum á móti hópum í heimsókn eftir samkomulagi. Heimsóknir fyrir skóla- og leikskólahópa eru án endurgjalds.

Allar nánari upplýsingar veitir fræðslufulltrúi Norræna hússins:
Hrafnhildur Gissurardóttir / hrafnhildur@nordichouse.is / 551 7061.

Bæklingur um barna- og unglingastarf

Vor og Sumar 2024

Barnastarf, fræðsla og samvera í Norræna húsinu 

Norræna húsið leggur áherslu á skapandi fræðslu, samveru og vandaða miðlun norrænna lista og menningar til barna og ungmenna. Gæðastundir fyrir fjölskyldur, skipulagðar skólaheimsóknir og sérsniðnir viðburðir eru í boði allan ársins hring. 

Fræðsla um Norðurlöndin er hluti af námskrá 6. bekkja á Íslandi og er stefna Norræna hússins að bjóða nemendum viðbótarfræðslu við námsefnið með áherslu á listir og menningu.  

Norræna húsið er samkomustaður þar sem metnaður hefur verið lagður í að skapa skemmtilegt umhverfi fyrir börn og fjölskyldur og hægt er að gleyma sér á barnabókasafni þar sem hægt er að finna fjölbreytt úrval bóka á öllum norrænu tungumálunum. 

Fræðsludagskrá Norræna hússins tekur mið af aðalnámskrá grunnskóla og fylgir stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í markvissu alþjóðastarfi sem leggur áherslu á réttindi barna og sjónarmið ungs fólks. 

Barnabókasafn

Leikskólar, grunnskólar og aðrir hópar geta pantað heimsóknir í Norræna húsið og bókasafnið. Bókasafnið er vel útbúið af spilum og leikföngum, púðum og brúðum, bókum og flottri sýningu sem innihleldur skemmtileg ævintýri.

Í barnabókasafni Norræna hússins eru barnabækur, unglingabækur sem og fræðibækur fyrir börn á öllum 7 norðurlandamálunum. Á veturna eru sögustundir fyrir börn á íslensku, sænsku, finnsku, norsku, færeysku, grænlensku og dönsku.

Norræni bókagleypirinn 

Bókaspjall með börnum um norrænar myndabækur 

Norræni bókagleypirinn veitir aðgang að ókeypis náms- og stuðningsefni um myndabækur frá Norðurlöndum á öllum norrænu tungumálunum. Efnið má finna á heimasíðunni bokslukaren.org og er öllum frjálst til afnota. Vefurinn inniheldur kveikjur að fjölbreyttum og þroskandi samræðum með mismunandi þemu fyrir forráðafólk, foreldra og kennara. Hér er hægt að sjá bækur sem eru til á Borgarbókasafni en einnig er hægt að nálgast bækurnar á norrænum tungumálum á bóksafni Norræna hússins í Reykjavík.

Árið 2023 mun opna sýning á barnabókasafni Norræna hússins með bókum Norræna bókagleypisins og boðið verður upp á leiðsagnir og fræðslu í tengslum við sýninguna.

Kennsluvefurinn Norræni bókagleypirinn er afrakstur norræns samstarfs Borgarbókasafnsins, Norræna hússins í Finnlandi, Norðurlandahússins í Færeyjum, Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi og Norrænu stofnunarinnar á Álandseyjum. 

Frekari upplýsingar veitir:
Hrafnhildur Gissurardóttir, fræðslufulltrúi Norræna hússins: hrafnhildur@nordichouse.is
og Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Borgarbókasafninu gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is

Vinaskóli Norræna hússins

Verkefnið Vinaskóli Norræna hússins er langtímaverkefni unnið með Hólabrekkuskóla með áherslu á nemendur í sjötta bekk.

Verkefnið hefst með heimsókn í Norræna húsið þar sem fræðst verður um starfsemi hússins, Norrænu löndin og hápunkta í norrænni menningu með áherslu á myndlist, tónlist og bókmenntir. Verkefnið felur í sér alhliða fræðslu þar sem nemendur fá færi á að starfa í hópavinnu þar sem hver hópur velur áherslu og því gefst nemendum færi á að fræðast í gegnum áhugasvið sín, undir handleiðslu safnkennara. Ferlið virkjar sjálfstæða hugsun, sköpunarkrafta og þjálfar samskiptafærni auk þess sem reynt verður á hæfileika í miðlun. Markmið verkefnisins er að gefa nemendum færi á menningarlæsi sem nær út fyrir landsteinanna ásamt því að kynnast fjölbreyttu starfi hússins og umhverfi þess. Með auknu menningarlæsi eykst meðvitund um samhengi landa og þjóða auk þess sem að heilbrigður samanburður getur átt sér stað en gagnrýni á eigin land og þjóð er mikilvægur grunnur lýðræðissamfélaga. Verkefnið minnkar bil milli landanna og eykur möguleika á samstarfi í framtíðinni.

Norræna húsið fylgir stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í markvissu alþjóðastarfi sem leggur áherslu á réttindi barna og sjónarmið ungs fólks ásamt því að stefna að því að gera Norðurlöndin að einu sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.