Merete Pryds Helle (f. 1965) nam ritlist og er með BA-gráðu í bókmenntafræði. Hún hefur í mörg ár búið á Ítalíu þar sem hún hefur m.a. starfað sem aðstoðarkennari við nokkra háskóla.
Pryds Helle gaf út sína fyrstu bók árið 1990 en sú bók sem vakti hvað mesta athygli á höfundinum var sagan Fiske i livets flod (2000). Fyrir utan ljóð og smásögur hefur Merete Pryds Helle skrifað barnabækur, ritgerðir, útvarpsleikrit og starfað sem gagnrýnandi svo fátt eitt sé nefnt. Höfundastíll hennar þykir einkennast af öryggi og tilraunum með tungumálið og hefur Pryds Helle verið líkt við samtímahöfunda á borð við Helle Helle, Kirsten Hammann og Christinu Hesselholdt. Allt höfundar sem eru stór og mikilvægur hluti af dönsku bókmenntasenunni í dag.
Sú skáldsaga sem vakti hvað mesta athygli á höfundinum er fjölskyldusagan Folkets skønhed (2016). Verkið byggir Pryds Helle á eigin ættarsögu þar sem aðalpersónan elst upp við fátækt og þar sem ofbeldi gegn börnum þykir sjálfsagt. Höfundur þykir draga upp raunsanna samfélagsmynd af Danmörku á 20. öldinni, fátækt 4. áratugarins og sögu margra þeirra kvenna sem ekki urðu hluti af kvennabyltingunni á 8. áratugnum. Verk sem lýsir hæfileika höfundar með hin ýmsu stílbrögð en fyrir það hlaut Merete Pryds Helle einmitt Gyllta lárviðarlaufið og er tilnefnd til bókmenntaverðlauna danska útvarpsins (DR) ásamt fleiri verðlaunum.