Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Í janúar verður gestur okkar sænski rithöfundurinn Kristina Sandberg.
Þekktust er hún fyrir þríleikinn um heimavinnandi húsmóðurina Maj. Fyrir síðustu bókina í þríleiknum, Liv till varje pris, hlaut Kristina Sandberg virtustu bókmenntaverðlaun Svía árið 2014, Augustpriset. Auk verðlaunabókarinnar Liv till varje pris samanstendur þríleikurinn af bókunum Att föda ett barn(2011) og Sörja för de sina (2013).
Með þríleiknum, en sögusvið hans spannar frá árinu 1938 fram til ársins 1970, þykir Sandberg lýsa á einkar áhugaverðan hátt hversdagsleika og lífi fjölskyldu þar sem húsmóðirin er í forgrunni.
Tinna Ásgeirsdóttir stýrir umræðu sem fer fram á sænsku.