Kirsten Thorup (f. 1942) gaf út fyrstu ljóðabók sína Indeni – Udenfor árið 1967 og fagnaði því 50 ára höfundaafmæli á nýliðnu ári. Thorup semur jafnt ljóð, skáldsögur sem smásögur en það er fyrst og fremst fyrir skáldsögur á borð við Lille Jonna (1977), Himmel og helvede (1982), Den yderste grænse (1987) og Bonsai (2000) sem hún hefur sett spor sitt á danska bókmenntasögu okkar tíma. Skáldsögur Thorup þykja félagslega raunsæjar, djúpar og dæmigerðar fyrir tímann sem þær eru skrifaðar á.
Verðlaunahafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017 bregður ekki út af vana sínum í sinni nýjustu bók, verðlaunasögunni Erindring om kærligheden (2016) en þar er dregin upp mynd af konunni Töru sem gerir það að lífsverkefni sínu að hjálpa þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Án þess að hafa skipulagt það eignast hún dótturina Siri og reynist móðurhlutverkið henni erfitt. Í sögunni er sambandi þeirra fylgt eftir um árabil: Rakin er átakanleg og miskunnarlaus atburðarás í blæbrigðaríkri frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar.
Gísli Magnússon, dósent i dönsku við Háskóli Íslands stýrir umræðu sem fer fram á dönsku.