UNDIRNIÐRI


10-17 þri- sun
Aðgangur ókeypis

UNDIRNIÐRI býður gestum inn í órætt völundarhús dulinna kennda og áleitinna spurninga um sjálfið. Aðferðafræði og efnistök þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni eru afar fjölbreytt, m.a. sett fram í formi innsetninga, hreyfimynda og skúlptúra. Sameiginlegur nefnari er gáskafull viðleitni til að hrófla við hefðbundnum birtingarmyndum kyns og kynverundar í samtímanum. Veikleikar staðalímynda eru kannaðir, kafað er í undirmeðvitundina og hið bælda í mannlegu eðli kitlað. Við liggjum á hleri og gægjumst undir slétt og fellt yfirborð norrænnar samfélagsútópíu.   

Sýningin endurspeglar að forminu til veröld þar sem allir tengjast í flóknu rótarkerfi, um leið getur einstaklingurinn í auknum mæli einangrað sig bæði líkamlega og hugmyndafræðilega.  

UNDIRNIÐRI, er vísun í hugarheim og sálrænt viðfangsefni sýningarinnar en einnig hið eiginlega rýmiÞað gerist vart bókstaflegra og klisjukenndara en svo að kalla fram táknheim jaðarhugmynda með skírskotun til neðanjarðarrýmis. Við erum, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, stödd í kjallara norræna velferðarsamfélagsins.

En það er einmitt með slíku afdráttarleysi sem UNDIRNIÐRI markar tímamót. Með sýningunni verður til varanlegur rannsóknarvettvangur í Hvelfingu Norræna hússins þar sem leitast er við að skapa krefjandi rými fyrir staðleysu (heterótópíu) og ögra þannig hugmyndum okkar um veruleikann og sannleikann. 

Til að kanna frekar hin fjölmörgu lög og þemu sýningarinnar verður boðið upp á ýmsa viðburði, svo sem viðtöl við listamenn, kvikmyndasýningar og gagnrýnar umræður, meðan á sýningunni stendur. Vegna þeirra takmarkana sem eru í gildi í tengslum við Covid-19 verða stafræn form nýtt þegar hinu líkamlega eru settar skorður.  

Listamenn
Nathalie Djurberg & Hans Berg (SE) 
Lene Berg (NO)
Paarma Brandt (GL)
Adam Christensen (DK)
Gabríela Friðriksdóttir (IS)
Emma Helle & Helena Sinervo (FI)
Maria Pasenau (NO)

Arnbjörg María Danielsen, sýningarstjóri
Sofie Ringstad Bakke, aðstoðarsýningarstjóri

Stafræn sýningarskrá

 

Vinsamlegast athugið að sum verkin í sýningunni eru ekki við hæfi barna.  Aðgangur ókeypis. Sýningin er opin þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 10 til 17. Norræna húsið er lokað á mánudögum.
Myndbandið er brot úr vídeóverkinu One Last Trip to The Underworld (2019) Nathalie Djurberg & Hans Berg.