Höfundakvöld með Susanna Alakoski – streymi


19:30

 Höfundakvöld með Susanna Alakoski

Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins félagsráðgjafinn og rithöfundurinn Susanna Alakoski. Viðburðurinn byrjar kl. 19:30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Tinna Ásgeirsdóttir stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku. Aðgangur er ókeypis.

Norræna húsið streymir frá viðburðinum hér: Meira um streymið.


Susanna Alakoski

Susanna Alakoski (1962) er fædd í Finnlandi en ólst upp í Svíþjóð þar sem hún er búsett. Hún er félagsráðgjafi að mennt en gaf árið 2006 út sína fyrstu bók, hina sjálfsævisögulegu Svinalängorna (Svínastíurnar) sem vakti samstundis mikla athygli. Þar segir af finnskri fjölskyldu sem flytur til Svíþjóðar á sjöunda áratugnum  í leit að betra lífi. Fyrir bók sína hlaut Alakoski August-priset árið 2006. Sagan hefur einnig verið kvikmynduð með þeim Noomi Rapace og Ola Rapace í aðalhlutverkum og hlaut hún kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Með annarri bók sinni Håpas du trifs bra i fengelset frá árinu 2010 eru vandamál áfengis- og annarar misnotkunar til umfjöllunar. Þar fjallar höfundurinn um hvernig ofneysla og misnotkun erfast frá kynslóð til kynslóðar þeirra sem fluttu frá Finnlandi til Svíþjóðar í leit að betra lífi. Efni mjög tengt fyrstu skáldsögu hennar. Með bókum sínum Oktober i Fattigsverige og April i Anhörigsverige er Alakoski á sömu slóðum, þ.e. fjallar um líf með misnotkun áfengis, fátækt, heimilisleysi, ósýnileika í samfélaginu og almennt erfið uppvaxtarskilyrði, séð frá sjónarhóli aðstandanda.

Félagslegar erfðir eru henni ofarlega í huga og speglast það í höfundarverki hennar. Árið 2011 kom svo fyrsta barnabók hennar, Dagens Harri út.

AALTO Bistro

Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Borðapantanir

Ljósmyndari myndarinnar af Alakoski: Sara Mac Key