Ripples: Shifting Realities in the Arctic
Ripples: Shifting Realities in the North / Gárur: umbreytingar á norðurslóðum sameinar listafólk og vísindafólk í rannsókn á djúpstæðum umhverfislegum, menningarlegum og skynrænum umbreytingum sem nú eiga sér stað á norðurslóðum. Sýningin skoðar áhrif loftslagsbreytinga á snjó, ís og jökullandslag og hvetur gesti til að íhuga samband mannsins við náttúruna og menningarlegt mikilvægi norðursins.
Listamenn: Britta Marakatt-Labba, Ivínguak Stork Høegh, Josefina Nelimarkka og Þorvarður Árnason. Sýningarstjóri: Ásthildur Jónsdóttir
Með ljósmyndum, myndböndum, textíl, málverkum og innsetningum eru settar fram fjórar ólíkar listrænar nálganir þar sem umhverfisvísindi fléttast saman við reynslu, þekkingu frumbyggja og ímyndunarafl listarinnar. Hver listamaður nálgast norðrið ekki aðeins sem stað, heldur sem menningarlegt, tilfinningalegt og vistkerfislegt kerfi í stöðugri breytingu.

Britta Marakatt-Labba, þekkt sámi listakona, notar textíllist til að sýna djúp menningarleg og andleg tengsl samískra samfélaga við snjó og dregur upp hringrás og árstíðasveiflur lífsins á norðurslóðum.
Þorvarður Árnason sýnir tuttugu ára ljósmynda- og myndbandsheimild frá Vatnajökli sem sýnir hratt hop jökulsins og áþreifanlegar vísbendingar um loftslagsbreytingar.
Josefina Nelimarkka nýtir veður- og loftslagsgögn ásamt umhverfisvísindum í umlykjandi innsetningum sem gera ósýnilega krafta veðurs og loftslags að skynrænni upplifun.
Ivínguak Stork Høegh endurmótar framtíðarsýn norðursins í anda Indigenous Futurism og blandar saman litadýrð og menningarlegum táknum til að skapa mynd af seiglu, umbreytingu og síbreytilegum norðlægum sjálfsmyndum.
Sýningunni fylgir fræðslurými og sýning á barnabókasafni Norræna hússins sem unnin er í samstarfi við grunnsskóla í Reykjavík. Verkefnin hvetja nemendur og gesti til að kanna loftslagsbreytingar í gegnum sköpun, samtal og ígrundun og skoða hvernig vísindaleg þekking, listræn nálgun og líkamleg reynsla fléttast saman.
Á sýningartímanum (febrúar–maí 2026) mun röð vinnustofa, fyrirlestra og málstofa tengja saman listafólk, fræðafólk, kennara og ungt fólk víðs vegar af Íslandi. Þessi verkefni ná hámarki með barnasýningunni “Norðið” sem verður hluti af Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Með þessum hætti eru þemu Ripples færð inn í ný samhengi kynslóða og samfélaga.
Í kjarna sínum leitast Ripples við að vekja bæði undrun og ábyrgðartilfinningu. Með því að sameina þekkingu frumbyggja, vísindalega innsýn og listræna tjáningu hvetur sýningin áhorfendur til að velta fyrir sér samtengingu náttúrukerfa og siðferðilegum afleiðingum umhverfisbreytinga. Hún skorar á gesti að horfa út fyrir fagurfræðilegt yfirborð bráðnandi íss og breytilegs veðurfars og íhuga eigið hlutverk í þessum hnattrænu ferlum.
Með því að sameina þessar raddir og framtíðarsýnir dýpkar Ripples skilninginn á því að framtíð norðursins er óaðskiljanleg frá sameiginlegri framtíð jarðarinnar og okkar allra.
Forsíðumynd: Dr. Þorvarður Árnason
Aðgengi að sýningunni er annaðhvort um útitröppur eða með lyftu úr anddyri hússins. Nánari upplýsingar um aðgengi og opnunartíma má finna með því að smella hér.

