Norrænt tónlistarkvöld með Tue West (DK) og GDRN (IS)


20:00

 

Til að slá lokatóninn í viðburðaríka viku sem haldin er í tengslum við dag Norðurlanda 23. mars bjóða Norræna húsið í Reykjavík, danska sendiráðið á Íslandi og sendinefnd ESB á Íslandi á tónleika með GDRN og Tue West í samvinnu við önnur norræn sendiráð og ræðisskrifstofur á Íslandi.

Tue West er danskur söngvari, lagasmiður og framleiðandi sem búsettur er á Íslandi. West kom fyrst fram árið 2003 og hefur síðan þá gefið út sex sólóplötur auk plötu á ensku með tríóinu Jaruni, Moura og Wesko. West hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín.

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, sem gengur undir listamannanafninu GDRN, þarf vart að kynna fyrir Íslendingum. Hún gaf út sína fyrstu plötu „Hvað ef“ í ágúst 2018 og vakti hún gífurlega athygli. GDRN hlaut fern verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018 og var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna sama ár. Nýjasta plata hennar, GDRN, kom út í febrúar 2020 og hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli. Tónlistina hennar má skilgreina sem popp með djassáhrifum, í bland við örlítið R’n’B.

Okkur er það mikil ánægja að fá West og GDRN til að leika listir sínar í Norræna húsinu! Í ljósi nýrra samkomutakmarkana verða tónleikarnir einungis í boði gjaldfrjálst í gegnum vefstreymið hér á síðunni og Facebook Live hér: https://fb.me/e/245rhlZh2.