Norðrið: barnasýning
Norðrið er sýning á barnabókasafni Norræna hússins sem býður ungum gestum inn í skapandi og hugmyndaríkt rými, innblásið af norðlægri náttúru, jöklum og ævintýraheimum. Norðrið opnar á sama tíma og myndlistarsýningin Gárur: umbreytingar á norðurslóðum opnar í sýningarýminu Hvelfingu og má finna verk listamannanna einnig inni á barnasýningunni. Lögð er áhersla á að börn og fjölskyldur geti dvalið, skapað og unnið listrænt undir áhrifum verka sýningarinnar.
Verk eftir börn frá Höfn í Hornarfirði og Snæfellsbæ, sem búa í nágrenni jökla, skapa grunnstemningu sýningarinnar og kalla fram tengsl við ís, ljós, kyrrð og kraft náttúrunnar. Nemendur í Hagaskóla hafa hannað ævintýraheim þar sem gestir geta stigið inn í annan veruleika, meðal annars átt notalega stund inni í tjaldi í anda sama hirðingja, þar sem hugmyndir um ferðalög, skjól og samveru fá að blómstra.
Íshella- og jöklastemning mótar rýmið og hvetur gesti til að upplifa norðrið með öllum skilningarvitum: að leika, ímynda sér, skapa og tengjast bæði náttúru og list á eigin forsendum.
Börnum, í fylgd fullorðinna, er boðið að byrja heimsóknina í Hvelfingu sýningarrými. Í móttökunni þar er hægt að fá skemmtilegan bækling sem leiðir gesti í gegnum sýninguna. Bæklingurinn inniheldur stutta fræðslutexta ásamt spurningum og vangaveltum sem hægt er að pæla í saman, á meðan á ferðalaginu í gegnum sýninguna stendur. Leiðangurinn endar inn á barnabókasafni, þangað sem sýningin teygir sig.
Veggir rýmisins eru að hluta til þaktir pappír og gestir hvattir til að búa til sinn eiginn ævintýraheim og leggja þar með hönd á plóg við að skapa sýninguna. Barnabókasafnið breytist lifandi rými þar sem myndlist og fræðsla um náttúruna kemur saman og vex sýningin á meðan á sýningartíma stendur. Skýjaveggur sem hvetur börn til að skapa eigin ský og hengja upp á sýningunni er einnig til staðar ásamt ýmsum skapandi leikjum.
Leiðsagnir fyrir hópa. Boðið er upp á ókeypis leiðsagnir fyrir barnahópa frá leikskóla aldri, til framhaldskóla aldurs. Leiðsagnir er hægt að aðlaga að þörfum hópa og tengja við fræðslu um Norræn lönd. Hægt er að bóka á bókunarsíðu nordichouse.is eða með því að senda email til hrafnhildur@nordichouse.is. Allar leiðsagnir eru ókeypis og hægt er að bjóða upp á leiðsagnir á mismunandi tungumálum.
Aðgengi að barnabókasafni er niður stiga frá bókasafni eða með lyftu frá andyri og í gegnum sýningarýmið Hvelfinu. Nánari upplýsingar um aðgengi er að finna með því að smella hér.
Verk á forsíðu: „Ripples, Dreaming of Beach“ eftir Ivínguak Stork Høegh