Mýrin
Barnabókmenntahátíðin Úti í Mýri fer fram í Norræna húsinu 11.-14. október 2018
Spéfuglar, kettir og kynjaverur af ýmsu tagi munu verða á vappi um Vatnsmýrina dagana 11. – 14. október næstkomandi en þá mun alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Úti í Mýri fara fram í Norræna húsinu í níunda sinn. www.myrin.is
Margt áhugavert verður í boði fyrir bókelsk börn, ungmenni og alla áhugasama um barna- og ungmennabækur. Vinnustofur, upplestrar, málþing og sannkallað barnabókaflóð í öllum krókum og kimum Norræna hússins.
FIMMTUDAGUR 11.OKTÓBER Skólahópadagskrá og formleg opnun
FÖSTUDAGUR 12. OKTÓBER Málþing með gestum hátíðarinnar
LAUGARDAGUR 13. OKTÓBER Fjölskyldudagur með viðburðum
SUNNUDAGUR 14.OKTÓBER Heiðursgestadagskrá og húllumhæ!
Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru þau Sigrún og Þórarinn Eldjárn og verður lokadagur hátíðarinnar, sunnudagurinn 14. október, helgaður þeim.
Erlendir gestir munu heimsækja hátíðina, meðal annars hinn danski Peter Madsen en margir þekkja teiknimyndaseríu hans um Goðheima (Valhalla), hin hollensk/sænska Marit Törnqvist sem myndskreytt hefur nokkrar af bókum Astridar Lindgren. Malene Sølvsten sækir einnig hátíðina heim en þríleikur hennar, Hvísl Hrafnanna um unglingsstúlkuna og sjáandann Önnu, hafa farið sigurför um heiminn. Fjölmargir aðrir hæfileikaríkir og skemmtilegir höfundar taka þátt í hátíðinni, íslenskir sem erlendir, lesa upp úr verkum sínum og halda ritsmiðjur og vinnustofur fyrir börn. Af íslenskum höfundum má nefna þær Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Áslaugu Jónsdóttur sem báðar eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir bækur sínar Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels og Skrímsli í vanda en þær munu lesa upp úr bókum sínum á laugardeginum, 13. október.
Stutt um dagskránna
Fimmtudaginn 11. október er dagskrá fyrir skólahópa með upplestrum og vinnustofum fyrir börn á öllum skólastigum.
Föstudagurinn 12. október er málþingsdagur og munu þá íslenskir og erlendir höfundar og fræðimenn ræða spennandi málefni á borð við endursköpun menningararfsins í norrænum barna- og ungmennabókum, hvort illska sé jafn sjálfsagt umfjöllunarefni í barnabókmenntum og fyrsti kossinn eða fótboltamót í málstofu sem ber titilinn Barnabókmenntir í norðri og hvort barnabókin geti brúað bilið milli ólíkra menningarheima í samnefndri málstofu.
Á laugardeginum verða einnig margt spennandi í boði, fyrirlestrar, upplestur, vinnustofur og málstofa. Til dæmis verður hægt að taka þátt í vinnustofu sem ber heitið Dýrafimi og ljóðanudd þar sem börn og foreldrar nudda hvert annað við hljóð og takt dýraljóðanna úr bókinni Djur som ingen sett utan oss eftir Ulf Stark. Boðið verður upp á vinnustofu, undir stjórn hinnar finnsku Jenny Lucander, sem felur í sér að mála einn vegginn á sýningunni Barnabókaflóðið sem standa mun yfir í sýningarsal Norræna hússins í allan vetur. Benjamin Chaud frá Frakklandi stýrir vinnustofu þar sem gestir munu fá innsýn í hvernig sögur hans verða til á sama tíma og hann teiknar ný ævintýri við undirleik lifandi tónlistar og hægt verður að taka þátt í Furðufuglaskoðun með höfundum bókarinnar Fuglar, þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Rán Flygenring. Þetta er aðeins brot af því sem í boði verður á laugardeginum 13. október en nánar má lesa dagskrána á www.myrin.is
Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru þau Sigrún og Þórarinn Eldjárn og verður lokadagur hátíðarinnar, sunnudagurinn 14. október, helgaður þeim. Þá spjalla Margrét Tryggvadóttir, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Áslaug Jónsdóttir við þau Sigrúnu og Þórarin um verk þeirra og feril. Tónlistarflutningur verður í höndum Ragnheiðar Gröndal og Guðmundar Péturssonar. Á sama tíma mun Sævar Helgi Bragason eða Stjörnu-Sævar leiða þátttakendur í allan sannleika um stjörnumerkin í sannkallaðri Geimvinnustofu. Í smiðjunni ætlar hann að kenna börnunum að búa til sín eigin stjörnumerki og semja um þau sögur og teikna myndir af þeim.
Ókeypis er inn á alla viðburðina nema málþingsdaginn, sem kostar 3.500 krónur (hádegisverður og kaffiveitingar innifalinn). Skráning er nauðsynleg á allflesta viðburði hátíðarinnar og fer hún fram á myrinfestival@gmail.com
Allar frekari upplýsingar eru góðfúslega veittar af verkefnastjórum hátíðarinnar:
Ágústu Lúðvíksdóttir s. 869-5810 myrinfestival@gmail.com
Marloes Robijn s. 785-6807 myrinfestival@gmail.com