Myndbreyting
Myndbreyting opnar þann 22. janúar í Norræna húsinu og stendur til 15. febrúar 2015.
Sýningin er hluti af 700IS Hreindýralandi vídeólistahátíð. Hreindýraland kynnir samtíma vídeólist frá norðurlöndum og víðar og vettvangur umræðu um vídeólist í dag.
www.700.is
Listamenn sem sýna:
Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Haraldur Karlsson, Hrafnkell Sigurðsson, Jóhan Martin Christiansen (FO), Amalie Smith (DK), Maj Hasager (DK), Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristín Scheving, Magnús Helgason, Marie Thams (DK), Margarida Paiva (NO), Sara Björnsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir.
Á opnuninni, 22.janúar, verða verk, gjörningar og innsetningar eftir þessa listamenn sýnd í ráðstefnusal Norræna hússins og í óhefðbundnum rýmum hússins:
Anders Elsrud Hultgreen (NO), Kaia Hugin (NO), Ulf Kristiansen (NO), Espen Tversland (NO), Ottar Ormstad (NO), Albert Merino (SP), Fabio Scacchioli – Vicenzo Core (IT), Iury Lech (SP), Liu Yanhu (CH), Susann Maria Hempel (DE), Rebekkah Lelia Palov (USA), Seo Jung Lee (South Korea / France), Michael Bielicky (DE), Kamila B. Richter (DE), Lukas Rehm (DE), Lena Zwerina (DE), Jan Cordes (DE).
Gestasýningarstjórar:
Margarida Paiva (NO), Iury Lech (ESP) og Marie Thams (DK).
Um hátíðina:
700IS Hreindýraland er nú haldið í tíunda og síðasta skiptið. 700IS Hreindýraland hefur frá upphafi gefið listamönnum það rými sem þarf til að prófa sig áfram og gera tilraunir.
Þeir listamenn sem Kristín Scheving hefur valið að vinna með á þessari síðustu sýningu eru allt listamenn sem hún hefur unnið með á síðustu tíu árum í mismunandi sýningum og verkefnum.
Eftir tíu ára starf er gaman að horfa til baka og sjá hversu margt hefur verið gert, 10 hátíðir á Austurlandi, alls kyns sýningar á erlendri grundu, samstarf við ýmsar stofnanir, sýningar með frábærum listamönnum frá öllum heimshlutum og mjög margar skemmtilegar stundir, rútuferðir í kringum landið, eldgosdans á Eiðum og svo framvegis. En nú er tími kominn til að breyta til.
Á 700IS á Austurlandi voru breytingar og tilraunir eðlilegur hluti hátíðarinnar og kom það meðal annars til vegna húsnæðisins og staðsetningarinnar, endalaust rými, tóm hús, vilji íbúanna og annarra listamanna á Austurlandi til að vinna með hátíðinni. Það eina sem oft setti strik í reikninginn var fjárhagsstaða hátíðarinnar, að halda hátíð úti á landi er erfitt því að margt þarf að flytja austur og að sjálfsögðu að koma boðsgestum þangað, sem kostar sitt, jú og slæmt veður þar sem hátíðin var alltaf haldin á vetrarmánuðum frá mars 2006. En sköpunarfrelsið og rýmið sem listamennirnir unnu í var oftar en ekki þess virði að leggja á sig þessa löngu ferð og sérstaklega þeir sem dvöldu á Eiðum eða í Sláturhúsinu í listamannadvöl töluðu alltaf um hversu ánægjulegt það hefði verið.
Hátíðin hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum, fengið styrk úr norrænum sjóðum og ýmsum innlendum sjóðum og skipulagði Evrópuverkefnið Alternative Routes árið 2008 – 2010.
Sýnd hafa verið yfir 500 verk á Austurlandi og í Reykjavík sem og erlendis og í þetta skipti hefur Kristín ákveðið að velja sem þema „vídeó-stilluna“ sem hún hefur sjálf unnið mikið með. Þar kemur líka inn nafnið á sýningunni, breyting í sköpunarferlinu sem getur byrjað sem skissa að mynd, storyboard, vídeó eða tilraunamynd og endað sem stilla – ljósmynd – sem síðar gæti orðið hluti af stórri innsetningu. Tilraunin getur staðið yfir í mörg ár.
Kristín Scheving vill þakka öllum þeim listamönnum sem hafa unnið með henni og sýnt á hátíðinni sl. ár; sýningarstjórum, öðrum hátíðum, stofnunum og síðast en ekki síst styrktaraðilum frá byrjun.
Dagskrá 22. janúar 2015
16:00 Úrval norskra vídeóverka/stuttmyndir valið af Margaridu Paivu sýningarstjóra og listrænum stjórnanda Oslo Screen Festival. Fer fram í fyrirlestrasal.
17:00 Opnun á sýningunni „Myndbreyting“, forstjóri Norræna hússins, Mikkel Harder, fer fram í anddyri.
17:05 Marie Thams segir frá úrvali sínu af dönskum vídeóverkum.
17:15 Úrval stuttmynda valið af Iury Lech, sýningarstjóra og listrænum stjórnanda Madatac hátíðarinnar í Madríd. Fer fram í fyrirlestrasal.
18:15 Hljóð og vídeógjörningurinn „Lybes Dimem“ eftir Lukas Rehm. (lengd 15 mín.). Fer fram í fyrirlestrasal.
16:00-19:00 gjörningurinn „en.gramma“ í Alvar Aalto-herbergi eftir Lena Zwerina í anddyri NH.