Mikael Frödin kynnir rannsóknir sínar um áhrif fiskeldis í opnum sjókvíum


12:00

Mengun í hafi, laxalús og hætta á erfðablöndum vegna sleppinga eru allt fylgifiskar laxeldis í opnum sjókvíum.

Sænski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Mikael Frödin hefur fjallað mikið um fiskeldi í opnum sjókvíum og áhrif þess á lífríkið. Frödin, sem sjálfur er stangveiðimaður, var nýlega dæmdur til sektargreiðslu í Noregi eftir að hafa fangað og myndað fisk í laxeldiskví í sjó þar í landi. Mikið hefur verið fjallað um slæm áhrif fiskeldis í opnum sjókvíum á lífríkið og laxastofna í Noregi. Myndaefni sitt notaði Frödin í heimildarmyndir og almennar kynningar í þeim tilgangi að upplýsa almenning um raunveruleg áhrif fiskeldis í opnum sjókvíum og ástandið í sjálfum kvíunum.

Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF), stendur nú fyrir kynningarátakinu Á móti straumnum (amotistraumnum.is) þar sem fjallað er um kosti þess að stunda fiskeldi á landi eða í lokuðum sjókvíum. Mikael Frödin hefur gengið til liðs við átakið og mun segja frá kynningarstörfum sínum á opnum fundi hér á landi.

Fundurinn verður haldinn í Norræna húsinu, miðvikudaginn 21. nóvember kl. 12.00. Hann fer fram á norsku og ensku. 

Boðið verður upp á léttar veitingar.

 

Nánar um Mikael Frödin:

Mikael Frödin er fæddur 1961 og býr við vatnið Valloxen í Svíþjóð. Hann var aðeins 13 ára gamall þegar hann hóf að hnýta sínar eigin flugur og gerði hnýtingar og laxveiði að aðalstarfi sínu 18 ára gamall. Eftir að hafa starfað sem leiðsögumaður í mörgum af helstu veiðiám Skandinavíu hóf hann að skrifa um veiðar snemma á níunda áratugnum. Eftir hann liggur fjöldi greina og bóka um veiði. Þekktasta bók hans er Classic salmon flies sem þýdd hefur verið á fimm tungumál. Hann hefur jafnframt unnið að gerð fjölmarga heimildarmynda og sjónvarpsþátta víða um heim.