Málþing um Halldór Laxness: Nóbelsverðlaunin í 70 ár


16:00
Elissa Auditorium
Aðgangur ókeypis

Í tilefni af því að um þessar mundir eru 70 ár síðan rithöfundurinn Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 verður haldið málþing í Norræna húsinu. Af sama tilefni opnar Louise Calais, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, sýningu um Nóbelsverðlaunin í anddyri Norræna hússins áður en málþingið hefst. Sýningin mun standa til 23. nóvember.

Á þinginu fara fram erindi og umræður um Halldór Laxness, verk hans, áhrif hans sem höfundar og fjallað um erindi hans til nútímalesenda.

Dagskrá þingsins er eftirfarandi:

  • Salka – ástin og dauðinn

Halldór Guðmundsson rithöfundur ræðir við Unni Ösp Stefánsdóttur leikskáld og leikkonu um nýtt verk hennar byggt á skáldsögunni Sölku Völku. Unnur mun síðan flytja sýnishorn úr verkinu.

  • Excellence from the Outskirts: What a Difference a Nobel Prize Can Make

Mads Rosendahl Thomsen, prófessor í bókmenntum við Árósaháskóla og sérfræðingur í kerfi heimsbókmenntanna.

  • Jökullinn stendur opinn: Um lestur ungs fólks á verkum Halldórs Laxness í ljósi Kristnihalds undir jökli

Anna Rós Árnadóttir bókmenntafræðingur og ljóðskáld.

Kynnir er Halldór Laxness Halldórsson.

Dagskráin fer öll fram á íslensku fyrir utan fyrirlestur Mads Rosendahl Thomsen sem flytur erindi sitt á ensku.

Að málþinginu standa Sendiráð Svíþjóðar á Íslandi, Gljúfrasteinn, Forlagið, Reykjavík Literary Agency, Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands og Norræna húsið. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru öll velkomin.

Um svipað leyfi verður hægt að sjá sjálf Nóbelsverðlaunin á sýningu í Landsbókasafninu. Sýningin stendur yfir dagana 27. október til 19. desember. Til sýnis verða peningurinn og verðlaunaskjalið auk þess sem hægt verður að berja augum lárviðarsveig úr silfri sem Alþýðusamband Íslands færði Halldóri í tilefni af verðlaununum.

Þessir viðburðir, sýningar og málþing, eru hluti af viðburðaröð um Halldór Laxness og Nóbelsverðlaunin. Fyrr í haust var dagskrá í Listasafni Reykjavíkur með listamönnunum Ragnari Kjartanssyni og Joan Jonas um áhrif Halldórs Laxness á listsköpun þeirra.

Daginn áður, miðvikudaginn 5. nóvember verður Barsvar í Stúdentakjallaranum sem Bóksala Stúdenta stendur fyrir þar sem þemað er Halldór Laxness. Barsvarið hefst kl. 19 og eru öll velkomin.

Aðgengi í Elissu sal er ágætt fyrir hjólastóla, þó er lágur þröskuldur inn í salinn. 
Frekari upplýsingar um aðgengi er að fá hjá info@nordichouse.is