Listasýning Skunktúrar og Ofurhetjur – List án landamæra


Skunktúrar og Ofurhetjur er samsýning meðlima í Vinnustofu í myndlist, sem starfrækt er í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Sýningin er partur af List án landamæra og er á facebook hér.

Skunktúrar og Ofurhetjur opnar kl. 18:00 föstudaginn 4. maí í Black Box í kjallara Norræna hússins.

Fluttur verður gjörningur á opnuninni. Sýnendur eru Ingi Hrafn Stefánsson, Ásgeir Ísak Kristjánsson, Kolbeinn Jón Magnússon, Guðmundur Stefán Guðmundsson, Hringur Úlfarsson, Lára Lilja Gunnarsdóttir, Sigurður Reynir Ármannsson, Arna Ýr Jónsdóttir, Atli Már Indriðason, Valdimar Leó Vesterdal, Vilmundur Örn Gunnarsson, Ásdís Henný Pálsdóttir, Gígja Garðarsdóttir og Birkir Sigurðsson

Við vekjum athygli á því að á sama tíma opnar sýningin Dimmalimm á Barnabókasafninu Norræna hússins. Klukkan 19:00 verður svo kvikmyndasýning á vegum List án landamæra á nýjum vídjóverkum eftir sex norræna listamenn í salnum á efri hæð Norræna hússins.

Aðgengi að kjallara Norræna hússins er ágætt. Bílastæði eru nálægt.

Sýningin er opin alla daga hátiðarinnar, 4. til 13. maí, frá kl. 10-17 nema miðvikudaga þá er opið til kl. 21. Aðgangur er ókeypis.


Nánar um listamennina

Af mikilli snilli fangar Ingi Hrafn Stefánsson hina mögnuðu Hallgrímskirkju í öllum hennar ólíku blæbrigðum á ólíkum tíma dagsins og ársins sem væri hún lifandi vera með allt tilfinningalitróf manneskjunnar

Sigurður Reynir Ármannsson fæst við abstrakt táknmyndir, formin biðja um að þau séu lesin og túlkuð en ekki endilega skilin.

Kolbeinn Jón Magnússon ásamt Sigurði Reyni og Inga Hrafni fremja gjörning sem er tilbrigði við Rómeó og Júlíu Williams Shakespeare. Nýja leikgerðin er eftir Kolbein og sviðsmyndin eftir þá alla. „What’s up Juliet“ spyr Romeo og Júlía svarar.

Ásgeir Ísak Kristjánsson nálgast málverkið líkt og búddamúnkur gerir mandölu, með stóískri ró og rútínu endurtekinna forma og lita.

Guðmundur Stefán Guðmundsson sýnir vatnslitamyndir sem hann málar af einstakri næmni fyrir formum, efni og litum. Hann fangar kjarna þeirra fyrirmynda sem hann notar í verk sín með blíðlegum línum og mjúkum litum.

Hringur Úlfarsson er meistari pensilskriftarinnar og nálgast litasamsetningu af sömu gáfu og tónskáld setur saman nótur.

Lára Lilja Gunnarsdóttur vefur þræði af einstakri seiglu og elju. Á sama hátt vinnur hún málverkin sín, á þann hátt að krafturinn í henni flytur sig yfir efnið og áhorfendur fá að njóta.

Arna Ýr Jónsdóttir vinnur verk sín lag yfir lag eins og listakona á endurreisnartímabilinu. Hún blandar saman ólíkum efnivið, penna, tré-, túss- og neonlitum sem staðsetur hana í endurreisn nútímans þar sem allt er leyfilegt.

Atli Már Indriðason sýnir okkur inn í veröld ofurhetjanna og dregur þær upp sterkum dráttum og litum. Atli tekur sjálfur á sig mynd ýmissa ofurhetja og lætur okkur horfast í augu við okkar eigin ofurhetju

Valdimar Leó Vesterdal sækir sér innblástur víða, í umhverfið og fræðibækur. Hann framkallar innblásturinn fyrir áhorfendur með sterkum litum og fínum dráttum.

Vilmundur Örn Gunnarsson vinnur andlitssmyndir af poppstjörnun og frægu fólki úr samfélaginu. Andlitsmyndir hans hafa sterka vísun í teiknimyndir. Hann hefur áhuga vísindaskáldskap, sem má vel greina í verkum hans.

Áhugi Ásdísar Hennýar Pálsdóttur á þjóðsögum og ævintýrum hefur oft kveikt hjá henni hugmyndir að verkum. Ásdís vinnur bæði með teikningar, skúpltúra og vefnað og kannar hún hlutverk kvennleikans í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum.

Gígja Garðarsdóttir sækir sér fanga í kima vísindaskáldskaps, poppmenningar, bíómynda og bókmennta og teiknar og birtir okkur senur þaðan sem hún vinnur á tvívíða fleti.

Birkir Sigurðsson vinnur þvert á miðla. Hann vinnur skúpltúra, málverk og vídjóverk. Skúlptúrar Birkis eru ljóðrænir en bera þó vott um gagnrýna hugsun hans. Í vídjóverkum sínum hefur hann kannað einmanaleikann og innri þrár sínar.

Vinnustofan er annars vegar hugsuð sem sjálfstæð vinna undir handleiðslu kennara fyrir hóp sem á það sammerkt að hafa fengist töluvert við listiðkun og jafnvel mótað persónulegan stíl. Hins vegar er boðið uppá kennslu í tækni, efni og aðferðum fyrir nýja nemendur.

Vinnustofan er því sérsniðin að þörfum hvers og eins og um leið hvatning til þess að meðlimir haldi listiðkun sinni áfram og víkki áhugasvið sitt og getu í myndlist.

Kennarar í Vinnustofu:
Margrét M. Norðdahl
Kristinn G. Harðarson
Lee Lorenzo Lynch
Helga Óskarsdóttir
Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Nermine El Ansari