Lína, lýðræðið og raddir barna !


Barnabókasafn
Aðgangur ókeypis

Lína, lýðræðið og raddir barna!

Í tilefni af 80 ára afmæli Línu Langsokk, opnar sýning á barnabókasafni Norræna hússins sem gefur innsýn í ævintýralegan heim einnar vinsælustu sögupersónu barnabóka. Áhugi á Línu er tímalaus og er hún jafn vinsæl hjá börnum í dag og fyrir 80 árum þegar fyrsta bókin kom út.

Lína Langsokkur er íkonísk fígúra sem brýtur upp viðteknar venjur, efast um allt yfirvald og lifir lífinu á eigin forsendum. Línu eru engin takmörk sett. Hún er sjálfráða, býr ein og er ótrúlega sterk. Hún á gæludýr sem hún sér um sjálf og ræður hvað hún gerir dags daglega. Venjulega eru það einungis fullorðnir sem hafa þetta frelsi, vald og styrk. Lína er með ákvörðunarvald, ábyrgð og styrk fullorðinna en húmor og leikgleði barns.

Börn þrá frelsið sem þau sjá í lifnaðarháttum Línu og sjá sjálfræðið í hyllingum, en vita að það stendur þeim ekki til boða. Hinsvegar er hægt að leiða börn í huglægt ferðalag þar sem tilfinningin um algjört frelsi ræður ríkjum. Þar sem leikið er með hugmyndir og möguleika og ferðast í huganum út fyrir hin hefðbundnu mörk nútíma samélags.

Lína minnir okkur á að halda í barnið, leikinn og fáránleikann, snúa hugtökum á hvolf og hafa gaman -sama á hverju bjátar. ,,Línu viðhorfið”  er orðið að hugtaki sem lýsir gagnrýnni hugsun á viðteknum venjum.

Með sýningunni viljum við leggja aðaláherslu á að hugsa út fyrir kassann, mátt samkenndar og mikilvægi vináttu.

Frekari upplýsingar um sýninguna koma síðar.

Lestu um aðgengi í Norræna húsinu – smelltu hér.