Kordo spilar Mozart og Haydn á Jónsmessu


21:00
Miðaverð ISK 2.000 – 2.500Kaupa miða

Kordo kvartettinn heldur tónleika í Norræna húsinu á Jónsmessu fimmtudaginn 24. júní næstkomandi kl. 21. Á efnisskrá eru tveir strengjakvartettar, báðir í d-moll eftir tvo af meisturum tónlistarsögunnar, þá Wolfgang Amadeus Mozart og Franz Joseph Haydn. Kvartett Mozarts, nr. 15 op. 421 er í röð kvartetta sem hann tileinkaði Haydn og er talinn hafa verið saminn árið 1783. Kvartett Haydn í d-moll op. 76 nr.2, oft nefndur „Fimmunda-kvartettinn“ er ögn yngri, saminn 1797 eða 98 og tilheyrir röð kvartetta sem hann tileinkaði ungverska greifanum Erdödy. Á tónleikunum gefst því einstakt tækifæri til að heyra strengjakvartetta eftir þessa tvo vini og snillinga, hvorn á eftir öðrum.

Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd.

Kordo kvartettinn var stofnaður síðla sumars 2018 og hélt sína fyrstu tónleika í Norðurljósasal Hörpu í febrúar 2019. Tónleikarnir hlutu mikið lof gagnrýnenda sem sögðu kvartettinn skipa sér í röð fremstu kammerhópa landsins. Kordo hefur komið fram í Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Hörpu og vorið 2020 hélt hann nettónleika í Kúltúr klukkunni á vegum menningarhúsanna í Kópavogi en tónleikum kvartettsins sem vera áttu í Tíbrár-röðinni var aflýst vegna Covid-19. Hópurinn kom fram í Tíbrár-röðinni ásamt bandoneonleikaranum Olivier Manoury í mars síðastliðnum í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu argentínska tangómeistarans Astors Piazzolla, og kom nýlega fram í hinum nýstofnaða Kammerklúbbi Bókabúða Máls og menningar . Kordo kvartettinn heldur í sína fyrstu tónleikaferð í nóvember næstkomandi til Spánar þar sem kvartettinn mun halda sex tónleika.

Kordo kvartettinn skipa fiðluleikararnir Páll Palomares og Vera Panitch, víóluleikarinn Þórarinn Már Baldursson og sellóleikarinn Hrafnkell Orri Egilsson. Þau eru öll meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vera er nú 2. konsertmeistari hljómsveitarinnar og Páll er leiðari 2. fiðlu. Þeir Þórarinn og Hrafnkell hafa báðir gegnt tímabundið starfi staðgengils leiðara á undanförnum árum.

Miðaverð 2500 kr, 2000 fyrir nemendur og ellilífeyrisþega. Aðgangur ókeypis fyrir börn 12 ára og yngri.