Klassík í Vatnsmýrinni – Concert Centenaire


20:00-21:30

Klassík í Vatnsmýrinni

Judith Ingolfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari, gestir frá Berlín, flytja tónlist eftir Fauré, Vierne og Rudi Stephan.

Concert Centenaire í Sal Norræna hússins 25. oktober kl. 20:00-21:30

Um tónleikaröðina

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum. Á starfsárinu 2016 – 2017  eru fimm tónleikar, tvennir með erlendum gestum og þrennir með íslensku listafólki úr röðum félagsmanna FÍT.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2500 kr en 1500 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.

Dúóið Ingolfsson-Stoupel
Judith og Vladimir hafa bæði skýra músíkalska sjálfsvitund og leita af ástríðu að nýjum leiðum til túlkunar á kammertónlist. Hugsjónir þeirra og forvitni færir þeim í hendur verkefni sem spanna allt frá hinu þekkta og viðurkennda, til hins óþekkta eða gleymda. Þau leggja aðaláherslu á tuttugustu aldar tónlist, og í vali sínu á efnisskrám kanna þau endalausar heillandi tengingar milli tónskáldanna, sögunnar og máttar tónlistarmiðlunar.
Dúóið kemur reglulega fram á helstu tónlistarhátíðum og tónleikasölum heims við frábærar undirtektir, svo sem Schleswig-Holstein tónlistarhátíðinni, Voix Etouffées hátíðinni í París, Brandenburgarsumartónleikunum og National Gallery of Art í Washington borg, svo örfá dæmi séu nefnd. Árið 2009 stofnuðu þau tónlistarhátíðina “Aigues-Vives en Musiques” í Suður-Frakklandi og eru listrænir stjórnendur hennar.
Dúóið hefur gefið út fjölda geisladiska sem hlotið hafa mikið lof. Í ár gaf útgáfufyrirtækið Accentus Music út þriggja geisladiska hefti sem nefndist „Concert Centenaire“ þar sem þau léku verk eftir tónskáldin Albéric Magnard, Rudi Stephan, Louis Vierne og Gabriel Fauré. Franska ríkið sæmdi dúóið nafnbótinni Centernaire sem er viðurkenning, veitt þeim verkefnum sem þykja skara fram úr öðrum af frumleika, hugmyndaauðgi og hönnun.

Judith Ingolfsson fiðluleikari er fædd á Íslandi og er faðir hennar íslenskur en móðir svissnesk. Hún hóf fiðlunám þriggja ára gömul, lék á fiðlu í sjónvarpi fimm ára og er hún var átta ára gömul var leikur hennar með Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritaður fyrir útvarpið. Nokkrum vikum síðar lék hún einleik með hljómsveit í Þýskalandi. Hún flutti með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna og fjórtán ára gömul fékk hún inni sem nemandi Jascha Brodsky við Curtis Institute of Music í Fíladelfíu. Judith lauk síðar meistara- og Artist Diploma gráðum frá Cleveland Institute of Music í Ohio. Þar voru kennarar hennar David Cerone og Donald Weilerstein.
Judith hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga, þar á meðal í Premio Paganini keppninni í Genoa og árið 1998 hlaut hún gullverðlaun í alþjóðlegu fiðlukeppninni í Indianapolis. Hún hefur leikið á sviðum helstu tónleikasala veraldar, leikið einleik með mörgum kunnustu hljómsveitum heims við frábærar undirtektir og leikið inn á níu geisladiska sem allir hafa hlotið mikið lof. Þá hefur hún tekið þátt í tónlistarhátíðum víða um heim.
Judith býr í Þýskalandi og er prófessor í fiðluleik við tónlistarháskólann í Stuttgart.

Píanóleikaranum Vladimir Stoupel hefur verið lýst sem einstökum listamanni með ótrúlegt lita- og tilfinningaróf í túlkun sinni við hljóðfærið. Yfirburðatækni hans gerir honum kleift að leita út á ystu nöf túlkunar og dáleiða hlustendur sína með spennumögnuðum flutningi. Gagnrýnandi dagblaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung hefur gefið honum eitt hið mesta hrós gagnrýnenda: „ógleymanlegt“.
Vladimir hefur leikið einleik í mörgum þekktustu tónleikasölum heims, með fjölda þekktra sinfóníuhljómsveita beggja vegna Atlantshafsins, t.d. Berlínarfílharmoníunni, Konzerthaus hljómsveitinni í Berlín, Gewandhaus hljómsveitinni í Leipzig, rússnesku ríkishljómsveitinni, og kapelluhljómsveitunum í Weimar og Mainz.
Síðustu árin hefur Vladimir haslað sér völl sem stjórnandi og stjórnað fjölda virtra hljómsveita víða í Evrópu. Hann er franskur ríkisborgari, en býr nú í Berlín.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr en 1000 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.

Dagskrá 2016-2017

25. október: Concert Centennaire, Judith Ingolfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari, gestir frá Berlín, flytja tónlist eftir Gabriel Fauré, Louis Vierne og Rudi Stephan.

15. nóvember: Knúið að dyrum, Wunderhorn tríóið, Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran, Ágúst Ólafsson barítón og Eva Þyrí Hilmarsdóttir píanóleikari flytja dúetta og ljóð eftir Johannes Brahms, Franz Schubert, Gustav Mahler og Antonin Dvorák

21. febrúar: La belle jardinière, Tríó Sírajón, Laufey Sigurðardóttir, fiðla, Anna Áslaug Ragnarsdóttir, píanó og Einar Jóhannesson, klarínett, flytja verk eftir Charles Ives, Gian Carlo Menotti, Dimitri Schostakovitsch, Aram Katchaturjan og Jónas Tómasson.

21. mars: Lifðu í núinu, lifðu í eilífðinni, Helga Rós Indriðadóttir sópran og Guðrún Dalía Salómonsdóttir flytja sönglög eftir Victor Ullmann, Arnold Schönberg og Alexander von Zemlinsky.

25. apríl: Á vit nýrra hljóma, Martin Gonshorek flautuleikari og Stefan Matthewes píanóleikari frá Hamborg, flytja verk eftir César Franck, Claude Debussy og Sergej Prokoffiev

Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Hlíf Sigurjónsdóttir, Sigurður Bragason og Anna Jónsdóttir.