Hugar – Tónleikar í streymi


18:00

Íslenska hljómsveitin Hugar – samsett af fjöllistamönnunum Bergi Þórissyni og Pétri Jónssyni – hafa skipað sér sess í íslensku tónlistarflórunni með hljóm sem liggur þvert á tónlistarstefnur. Þeir hafa unnið með hinum ýmsu listamönnum en þar má meðal annars nefna Björk, Sigur Rós, Ólaf Arnalds og Jóhann Jóhannsson en þeir byrjuðu að starfa saman sem Hugar árið 2013. Í kjölfarið kom út fyrsta platan, Hugar og síðan þá hefur hljómsveitin átt mikilli velgengni að fagna um allan heim og hefur tónlist þeirra meðal annars verið streymt yfir 50 milljón sinnum. Hugar hafa síðan gert plötusamning við Sony Masterworks í Bandaríkjunum og kom önnur plata þeirra, Varða, út haustið 2019.

Hugar áttu að vera á stórum Evróputúr í vor til að fylgja eftir plötu sinni, Vörðu, en vegna ástandsins þurfti að fresta öllum tónleikum fram á haust. Í millitíðinni verða haldnir sérstakir tónleikar í Norræna Húsinu og þeim streymt um víðan völl. Þeir munu leika gamla og nýja tónlist, meðal annars lög af óútkominni plötu sem ber nafnið The Vasulka Effect og kemur út í haust.

 

Hugar bandcamp